Skoðun

Um­ferðar­öryggi barna í Kópa­vogi

Eydís Inga Valsdóttir skrifar

Í síðustu viku hófst grunnskólinn aftur eftir gott sumarfrí. Götur bæjarins fylltust af ungum og óreyndum vegfarendum – börnum sem ganga eða hjóla í skólann, sum í fyrsta sinn án fylgdar. Þetta ætti að vera gleðistund. Í staðinn upplifa margir foreldrar kvíða: eru leiðirnar nógu öruggar?

Á Kársnesinu er ástandið sérstaklega alvarlegt. Kársnesbraut og Sæbólsbraut mætast á gatnamótum sem íbúar hafa árum saman kvartað yfir. Þar er grænt ljós fyrir gangandi vegfarendur á sama tíma og bílar fá grænt til að beygja. Þetta er slysagildra. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar hefur ekki verið brugðist við.

Hraðinn á Kársnesbraut var lækkaður úr 50 niður í 40 km/klst. Víða í Kópavogi hefur hann verið lækkaður í 30. En því miður er því ekki fylgt eftir. Á Kársnesinu bætist við mikil og þung umferð: flutningabílar, langferðabílar og leigubílar. Þetta eru ekki langir vegkaflar og það er með réttum úrlausnum hægt að stýra umferðinni þannig að það tryggi öryggi allra.

Foreldrar hafa lengi kvartað yfir skorti á öruggum gangbrautum yfir umferðarþungar götur – við leikskóla, grunnskóla og stoppistöðvar skólabíla. En viðeigandi ráðstafanir hafa ekki verið gerðar, aðeins lofað breytingum á næstu árum. En börnin okkar hafa ekki tíma til að bíða í mörg ár. Þau eru lítil og óreynd í umferðinni í dag. Við eigum ekki að þurfa að bíða eftir slysi til að fá úrbætur.

Lausnirnar eru til: þrengja þarf götur, fylgja eftir hraðatakmörkunum og endurskipuleggja umferðarflæði með það að markmiði að öryggi gangandi og hjólandi verði í forgangi.

Það er á ábyrgð bæjaryfirvalda að bregðast við þessum ábendingum íbúa – ekki seinna, heldur strax.

Höfundur er tveggja barna móðir í Kópavogi.




Skoðun

Sjá meira


×