Skoðun

Í minningu körfuboltahetja

Snæbjörn Guðmundsson skrifar

Mohammad Sha’lan, einn fremsti körfuknattleiksmaður Palestínu, lést langt fyrir aldur fram þann 19. ágúst síðastliðinn. Hann fæddist 11. nóvember 1985 í Bureij-flóttamannabúðunum á Gaza og átti langan og afar farsælan feril með mörgum af sterkustu körfuknattleiksliðum Gazastrandarinnar. Hann lék einnig fyrir þjóð sína með landsliði Palestínu á fjölmörgum alþjóðamótum.

Átján ára gamall vann hann sinn fyrsta titil með Khidmat Al-Maghazi í ungliðadeild Gazastrandarinnar en margir titlar áttu eftir að bætast í safnið. Flesta þeirra sótti hann með heimaliði sínu Khidmat Al-Bureij, en með því tók hann einnig þátt í arabísku meistaradeildinni árið 2005, sem haldin var það ár í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Frá 2003 fram til 2023 lék hann auk al-Maghazi og al-Bureij með ýmsum öðrum liðum á Gazaströndinni, svo sem Khidmat Khan Younis og Khidmat Al-Shati.

Sha’lan var dáður af samlöndum sínum og fékk viðurnefnið „jarðskjálftinn“ fyrir harðsnúna frammistöðu sína á vellinum. Ferlinum lauk hins vegar þegar Ísraelar réðust á Gaza undir lok árs 2023.

Mohammad var aðeins fertugur þegar hann lést. Ísraelskur hermaður myrti hann utan við hjálparmiðstöð nærri borginni Khan Younis á Gazaströndinni, þar sem hann beið í röð eftir mat fyrir fjölskyldu sína og lyfjum fyrir Myriam dóttur sína, sem þjáist af nýrnabilun og alvarlegum sjúkdómum í blóðrásarkerfi.

Mohammad Sha’lan lætur eftir sig sex börn. Hann bætist í hóp hundruð íþróttamanna sem myrt hafa verið af Ísraelum í yfirstandandi þjóðarmorði þeirra á palestínsku þjóðinni.

Megi körfuboltaheimurinn minnast Mohammads Sha’lans nú í upphafi Evrópumóts karla í körfubolta, sem og um alla framtíð.

Höfundur er jarðfræðingur




Skoðun

Skoðun

Þúsundir kusu Sönnu

Anna Bentína Hermansen Einarsdóttir,Ármann Hákon Gunnarsson,Baldvin Björgvinsson,Brynja Guðnadóttir,Haraldur Ingi Haraldsson,Jón Hallur Haraldsson,Kolbrún Erna Pétursdóttir,Ólafur H. Ólafsson,Rakel Hildardóttir,Sigrún Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×