Skoðun

Litlu ljósin á Gaza

Guðbrandur Einarsson skrifar

Á undan kvöldfréttum RÚV birtast okkur skjámyndir sem eru einhver konar skjáskot af því sem ber hæst hverju sinni. Fyrir nokkrum dögum síðan gat maður séð í slíku skjáskoti ánægð saklaus íslensk börn dansandi á leiksviði. Það yljaði en bara í nokkrar sekúndur. Rétt þar á eftir birtist annað skjáskot af öðrum börnum. Palentínskum börnum og þau voru ekki ánægð og glöð dansandi á sviði. Þeirra svið voru húsarústir sem væntanlega voru áður þeirra heimili. Það eru þær aðstæður sem heimurinn bíður þeim uppá. Leiksvið dauðans.

Lítil vannærð börn

Það var erfitt að horfa fréttir í vikunni um vannærð lítil börn sem fá ekki þá hjálp sem þau þurfa, vegna þess að Ísraelstjórn stöðvar alla flutninga á hjálpargögnum inn á svæðið. Þessara litlu barna bíður því ekkert annað en dauðinn verði ekkert að gert.

Sex þjóðir sem þora

Það gladdi mig hins vegar að lesa fréttir um það að Ísland væri í hópi sex þjóða sem kalla eftir því í að ísraelsk stjórnvöld hverfi frá áformum um að víkka út hernaðaraðgerðir sínar á Gaza og hafa þar varanlega viðveru.

Utanríkisráðherrarnir kalla einnig eftir nýju vopnahléi og lausn allra gísla og fara fram á að Ísraelar heimili þegar í stað að matar- og neyðaraðstoð berist aftur inn á Gaza í samstarfi við og fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna og hjálparstofnana.

Þetta er gott fyrsta skref en dugar hvergi nærri til.

Á þennan lista vantar þjóðir sem maður hefði haldið væru tilbúnar til að setja nafn sitt á slíkan lista.

Litlu ljósin

Barnabörnin mín eru ljósin í lífi mínu og þau ljós skína skært.

Litlu ljósin á Gaza eru hins vegar að slökkna eitt af öðru, í tugþúsunda tali og umheimurinn horfir bara á.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×