Skoðun

Aukinn stuðningur við ESB og NATO

Pawel Bartoszek skrifar

Í vikunni birtist könnun frá Gallup sem mældi stuðning almennings við aðild Íslands að tveimur fjölþjóðasamtökum, ESB og NATO.

Í ljós kom að 44% Íslendinga styðja aðild Íslands að Evrópusambandinu meðan 36% eru henni andvíg. Meirihluti er meðal stuðningsmanna Viðreisnar og Samfylkingarinnar og tæplega helmingur stuðningsmanna Flokks fólksins styður aðild. Einnig er meirihluti meðal stuðningsmanna þriggja flokka sem ekki náðu kjöri á Alþingi, þ.e.a.s. Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Pírata.

Varðandi aðildina að NATO þá er stuðningurinn yfirgnæfandi. Þannig styðja 72% kjósenda aðild að Atlantshafsbandalaginu og einungis 12% eru henni andvíg. Stuðningsmenn aðildar eru fleiri andstæðingar meðal stuðningsmanna ALLRA stjórnmálaflokka, þ.m.t. þeirra flokka sem ekki eru á þingi en hafa sjálfir verið andsnúnir NATO-aðild.

Fyrir fjórum árum var stuðningurinn við ESB-aðild um 30% og stuðningurinn við NATO 52%. Þessi mikla sveifla ræðst auðvitað mest af ytri atburðum, fyrst og fremst árás Rússlands inn í Úkraínu, sem hefur breytt því hvernig við Íslendingar þurfum að hugsa um öryggi okkar samstarf við aðrar þjóðir. Þegar stórveldi reynir að sölsa undir sig nágranna sína með vopnavaldi er rökrétt að önnur ríki, sérstaklega hin smærri, bregðist við með því að standa saman.

Ríkistjórnin vinnur í samræmi við þessar áherslur. Hún hefur boðað aukna áherslu á öryggis- og varnarmál, þar sem við munum vinna í nánu í samstarfi við okkar bandalagsþjóðir í NATO. Loks hefur hún heitið því að þjóðin sjálf fái að segja skoðun sína á framtíð aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Skoðun undirritaðs er þar þekkt. En kjósendur í landinu munu eiga lokaorðið.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar




Skoðun

Sjá meira


×