Upp­gjörið: Grinda­vík - Þór Ak. 92-80 | Grinda­vík hefndi fyrir tapið í fyrra og fer í úr­slit

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sætur sigur hjá Grindvíkingum í mjög sveiflukenndum leik.
Sætur sigur hjá Grindvíkingum í mjög sveiflukenndum leik. vísir / anton

Grindavík vann 92-80 gegn Þór Akureyri í svakalega sveiflukenndum undanúrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta. Grindavík hefndi þar með fyrir tapið gegn Þór í undanúrslitum í fyrra og mun mæta Njarðvík í úrslitaleiknum næsta laugardag.

Þór átti fyrsta höggið

Þórskonur byrjuðu leikinn betur, sýndu meiri ákefð og skutu svo vel í upphafi leiks að ljósin í húsinu fóru að flökta.

Grindavík svaraði og tók gleðina

Grindavík var hins vegar ekki lengi að kveikja á sér og átti gott áhlaup undir lok fyrsta leikhluta, sem Þórskonur hjálpuðu reyndar töluvert við með töpuðum boltum og sóknarvillum.

Fljótlega var leikgleðin sem Þór sýndi í upphafi farin að snúast í andhverfu sína. Gleðin var aftur á móti mikil hjá Grindvíkingum, sem komust í algjört banastuð á sínum „heimavelli“ og fóru að setja erfið skot ofan í.

vísir / anton

Þórskonur reyndu að berja í sig kraft og komast aftur inn í leikinn, með því að verjast fastar, spila hraðar, og keyra meira á körfuna. En Grindvíkingar mættu því áhlaupi bara með brosi á vör og fóru með ellefu stiga forystu inn í hálfleikinn (52-41).

Þórskonur gerðu allt sem þær gátu til að stöðva sjóðheita sóknarmenn Grindavíkur. vísir / anton

Ákefðin bar árangur

Í seinni hálfleik fór varnarákefðin hins vegar að bera árangur fyrir Þór. Grindavík gat greinilega ekki haldið áfram á gleðinni einni og skoraði ekki stig fyrr en sjö mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta og staðan orðin jöfn.

Grindvíkingar komust hvorki lönd né strönd. vísir / anton
Í sjö heilar mínútur. vísir / anton

Björguðu andliti eftir sjö stigalausar mínútur

Grindvíkingum tókst þó að bjarga andliti og setja nokkur góð skot undir lok þriðja og í upphafi fjórða leikhluta. Sem leiddi til þess að þær voru með um tíu stiga forystu þegar lokamínúturnar á þessum svakalega sveiflukennda leik gengu í garð.

vísir / anton

Lokaáhlaupið kom aldrei

Flestir bjuggust þá við áhlaupi hjá Þór, miðað við hvernig leikurinn hafði þróast. Það kom hins vegar aldrei, og munaði mikið um Amandine Toi sem lenti í villuvandræðum. Besti sóknarleikmaður Þórs og þær söknuðu hennar sárlega.

Þórskonur kvöddu allan möguleika á sigri þegar Amandine datt út. vísir / anton

Grindavík gerði vel, hélt út og hleypti Þórsurum ekki nógu nálægt sér til að gera leikinn spennandi. Lokatölur 92-80.

Atvik leiksins

Átti sér stað áður en leikurinn var flautaður á. Þá kom í ljós að Esther Fokke væri meidd og myndi ekki taka þátt í leik kvöldsins. Mikil blóðtaka fyrir Þór enda hefur Esther verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu. 

Einnig áfall þegar Amandine Toi fékk sínu fjórðu og fimmtu villu snemma í fjórða leikhluta. Gerði nánast út af við leikinn.

Viðtöl

Daníel Andri: Meiðsli í bland við vöntun á karakter

Daníel Andri segir sitt lið ekki vera að stíga sömu framfaraskref og önnur. vísir / anton

„Auðvitað leiðinlegt að detta úr bikar, þetta eru leikir sem þú vilt ekki tapa. En bara meiðsli í hópnum og stelpurnar gerðu sitt besta, svona megnið af leiknum“ sagði Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, fljótlega eftir leik.

Esther Fokke var frá vegna meiðsla og gat ekki tekið þátt. Voru einhverjar fleiri?

„Við þvinguðum Emmu til að spila á frekar lélegum ökkla og leikmenn voru bara ekki að spila eins og þær eru vanar að spila, þannig að það eru einhver eymsli. Við vorum hægar á fótunum og látum lið sem skorar 72 stig að meðaltali í leik skora 92 stig á okkur. Þetta er bara í bland við vöntun á karakter síðustu vikur.“

Er það farið að bíta ykkur, að vera með svona þunnan hóp?

„Já. Klárlega. Við erum að sjá hin liðin taka stór framfaraskref. Mínum stelpum til varnar þá erum við bara ekki með leikmannahóp til að taka eins stór skref og eins skilvirk. Það eru ekki eins skilvirkar framfarir hjá okkur þegar við náum aldrei að spila fimm á fimm [á æfingum].“

Í þessum leik munaði líka mikið um að Amandine detti út í fjórða leikhluta í villuvandræðum?

„Já, þetta var ekki alveg okkar leikur. Mér fannst hún ekki að vera að fá neitt þegar hún fór á hringinn og sumar villurnar pínu soft. Þú gætir spurt mig út í dómgæslu eftir hvern einasta leik og ég myndi örugglega hafa athugasemdir, en bara ekki okkar leikur í grunninn.“

Eitthvað sem þú sérð hérna á leikskýrslunni sem sker í augun?

„Já, þær eru yfir í öllum baráttuþáttum. Búa til fullt af stigum úr töpuðum boltum, miklu skilvirkari, nýttu sóknarfráköstin vel og vildu þetta miklu meira en við“ sagði Daníel Andri að lokum.

Þorleifur: Stoltur af stelpunum, stigaskorið dreifist vel og sýndum hvað í okkur býr

Þorleifur þurfti nokkrum sinnum að fara yfir málin með sínum konum og segja betur til verka. vísir / anton

„Ég er virkilega stoltur af stelpunum og ánægður“ sagði Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, fljótlega eftir leik.

Grindavík gekk í gegnum slæman kafla í upphafi seinni hálfleiks en tókst að snúa sér út úr því.

„Mjög illa. Vorum ekki að þora og Þór fékk að njóta sín í því sem þær eru bestar; hlaupa völlinn og vera töffarar. Við, sem betur fer, snerum því við. Stoppuðum það og sýndum hvað í okkur býr.“

Þá hjálpaði mikið að vera á heimavelli og geta sótt í sig stemninguna úr stúkunni.

„Klárlega og ég er mjög stoltur af öllu liðinu, allar að taka þátt í sóknarleiknum og skorið dreifist vel. [Tölfræðin á leikskýrslunni] lítur allavega vel út, svona í fljótu bragði“

Nágrannaslagur gegn Njarðvík er svo framundan í úrslitaleiknum á laugardag.

„Leggst bara mjög vel í mig. Fylla húsið og hafa gaman“ sagði Þorleifur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira