Körfubolti

„Ballerínan“ Curry fyrstur í fjögur þúsund þrista

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen Curry í viðtali eftir leikinn sögulega gegn Sacramento Kings.
Stephen Curry í viðtali eftir leikinn sögulega gegn Sacramento Kings. ap/Godofredo A. Vásquez

Stephen Curry varð í nótt fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA til að skora fjögur þúsund þriggja stiga körfur. Þjálfari hans líkti honum við ballerínu eftir leikinn.

Curry og félagar í Golden State Warriors mættu Sacramento Kings í Kaliforníuslag í nótt. Fyrir leikinn hafði Curry skorað 3.998 þrista á ferli sínum í NBA og vantaði því aðeins tvo til viðbótar til að ná fjögur þúsund þristum.

Curry skoraði sinn fjögur þúsundasta þrist í 3. leikhluta í leiknum í nótt sem Golden State vann, 130-104.

Curry var annars nokkuð rólegur í leiknum og skoraði aðeins ellefu stig. Draymond Green var stigahæstur hjá Stríðsmönnunum en sjö leikmenn liðsins skoruðu tíu stig eða meira í leiknum.

Þrátt fyrir að hafa þjálfað Curry síðan 2014 er hann enn að koma Steve Kerr, þjálfara Golden State, á óvart.

„Þetta er svo rosaleg tala. Það er erfitt að ná utan um þetta og hver veit, kannski verður þetta met slegið einn daginn,“ sagði Kerr en Curry er sá leikmaður í sögu NBA sem hefur skorað flestar þriggja stiga körfur (4.000). Næstur honum er James Harden, leikmaður Los Angeles Clippers, með 3.127 þrista.

„Þetta er meira en bara tölurnar. Þetta er flæðið og fágunin. Þetta er dirfskan að taka suma af þessum þristum en líka tilfinningin og fegurðin í þessu. Þetta er magnað. Þú horfir á hreyfingarnar hans á vellinum. Hann er eins og ballerína. Þú ert ekki bara að horfa á íþróttir, heldur list.“

Curry náði metinu yfir flesta þrista í sögu NBA af Ray Allen 2021. Allen skoraði 2.973 þrista á sínum langa ferli í NBA.

Curry og félagar í Golden State hafa verið á góðri siglingu og unnið sex leiki í röð. Þeir sitja í 6. sæti Vesturdeildarinnar með 38 sigra og 28 töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×