Leikur kvöldsins var sveiflukenndur og gestirnir í Donar Groningen leiddu með átta stiga mun að loknum fyrsta leikhluta, áður en Styrmir og félagar náðu níu stiga forskoti fyrir lok fyrri hálfleiks.
Heimamenn í Belfius Mons höfðu yfirhöndina eftir hlé og náðu mest 13 stiga forskoti í þriðja leikhluta, en gestirnir söxuðu jafnt og þétt á forskotið þegar komið var í lokaleikhlutann.
Gestunum tókst að jafna í tvígang og náðu í eitt skipti tveggja stiga forskoti, en Styrmir og félagar reyndust sterkari á lokasprettinum og unnu að lokum tveggja stiga sigur, 91-89.
Styrmir skoraði tólf stig fyrir Belfius Mons í kvöld og tók auk þess fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Eftir sigurinn situr Belfius Mons í níunda sæti deildarinnar með 14 sigra og 11 töp, en Donar Groningen situr í 16. sæti með sjö sigra og 17 töp.