Íslenski boltinn

Fyrir­liði Vestra í tveggja mánaða bann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elmar Atli Garðarsson er fyrirliði Vestra.
Elmar Atli Garðarsson er fyrirliði Vestra. Vísir/Hulda Margrét

Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra í Bestu deild karla í knattspyrnu, hefur verið dæmdur í tveggja mánaða bann vegna veðmálaþátttöku.

Á dögunum greindi Elmar Atli sjálfur frá því að hann hefði gerst sekur um að veðja á leiki hér á landi. Slíkt er með öllu bannað í efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu sem og öðrum íþróttum.

Í færslu á Facebook greindi Elmar frá því að hann hafi veðjað á leiki í Bestu deild karla. Veðmálin tengdust þó ekki Vestra eða höfðu áhrif á liðið eða þau sem voru í baráttu við Ísfirðinga. Elmar segir að háar fjárhæðir hafi ekki verið í spilinu og hann hafi ekki haft hag af.

KSÍ hefur nú dæmt í málinu og hefur Elmar Atli verið dæmdur í tveggja mánaða bann.

„Elmar Atli Garðarsson skal sæta banni frá allri þátttöku í knattspyrnu á tímabilinu 18. mars 2025 til og með 18. maí 2025,“ segir meðal annars í dómi KSÍ. Þar segir einnig: 

„Í greinargerð kærða gengst hann við brotum á lögum og reglugerðum KSÍ og biðst afsökunar á þeirri rýrð sem háttsemi hans hefur varpað á knattspyrnuhreyfinguna. Kærði bendir á að hann hafi aldrei veðjað á eigin leiki, fjárhæðir hafi verið óverulegar og veðmálin verið gerð til skemmtunar án þess að leikmaðurinn hafi áttað sig á alvarleika þeirra.

Þá er gerð athugasemd við talningu leikja í greinargerð framkvæmdastjóra KSÍ þar sem kærði telur leiki sem hann veðjaði á í efri hluta Bestu deildar í úrslitakeppni ekki teljast til leikja í eigin deild þar sem Vestri hafi leikið í neðri hluta. Þá er jafnframt bent á að leikir sem kærði veðjaði á í Lengjubikar hafi verið í öðrum riðli en Vestri lék í og að kærði hafi veðjað á leik í Mjólkurbikarnum eftir að Vestri féll úr keppninni.

Kærði krefst þess aðallega í greinargerð sinni að sér verði ekki gerð refsing í málinu. Til vara krefst kærði vægustu refsingar sem völ er á. Kærði vísar til þess að hann hafi aldrei veðjað á eigin leiki og ekki sé grunur um hagræðingu úrslita. Þá vísar kærði jafnframt til játningar sinnar og þess dráttar sem hefur orðið á meðferð málsins hjá KSÍ.

„Kærði hefur á um níu mánaða tímabili gerst sekur um ítrekuð brot gegn framangreindum ákvæðum. Um er að ræða 31 leik í Bestu deild karla, fjóra leiki í Lengjubikar karla og einn leik í Mjólkurbikar karla. Í mörgum tilvikum er um að ræða fleiri en eitt veðmál á hvern þessara leikja. Óumdeilt er að kærði hefur ekki stundað veðmálastarfsemi á eigin leiki en nefndin telur engu að síður að um sé að ræða alvarleg brot á reglum sem er ætlað að standa vörð um heilindi og ásýnd íþróttarinnar.“

Elmar Atli missir samtals af sjö leikjum Vestra á komandi leiktíð. Fyrsti leikurinn eftir leikbann væri gegn Stjörnunni á heimavelli þann 24. maí. Dóminn má finna í heild sinni á vef Knattspyrnusambands Íslands sem og hér að neðan.

Árið 2025, þriðjudaginn 18. mars, er fundur haldinn í aga- og úrskurðarnefnd KSÍ á skrifstofu Knattspyrnusambands Íslands í Laugardal, Reykjavík, af nefndarmönnunum Andra Val Ívarssyni, Ástu Björk Eiríksdóttur og Páli Kristjánssyni.

Fyrir er tekið málið nr. 2/2025: Framkvæmdastjóri KSÍ gegn Elmari Atla Garðarssyni.

Gögn málsins liggja frammi og kveðinn er upp svofelldur

I. Úrskurður: 

  • Kærandi: Framkvæmdarstjóri KSÍ, Eysteinn Pétur Lárusson.
  • Kærði: Elmar Atli Garðarsson.

Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ 7. mars 2025 var tekin fyrir greinargerð framkvæmdastjóra KSÍ, dags. 7. mars 2025, sem barst nefndinni skv. grein 21.2 í lögum KSÍ. 

Kærða var veittur vikufrestur til þess að skila greinargerð og frekari gögnum með bréfi, dags. 7. mars 2025. Greinargerð barst frá kærða þann 10. mars 2025.

II. Málsatvik:

Í greinargerð framkvæmdastjóra KSÍ sem barst aga- og úrskurðarnefnd þann 7. mars 2025 kemur fram að málið varði meint brot leikmanns Vestra, Elmars Atla Garðarssonar, fd. 08.03.97, á gr. 6.2 laga KSÍ, gr. 4.4 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót og gr. 1.d. staðalsamnings KSÍ í X. kafla reglugerðar KSÍ um félagsskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga.

Samkvæmt greinargerð framkvæmdastjóra KSÍ er málið tilkomið í kjölfar almennrar vöktunar veðmála hjá KSÍ vegna tilkynninga um veðmál. Fram kemur að KSÍ hafi í október 2024 valið tíu leikmenn Bestu deildar karla af handahófi í því skyni að kanna veðmálasögu þeirra á árinu 2024. Listi leikmanna var sendur UEFA sem aflaði í kjölfarið gagna frá Malta Gaming Authority (MGA) um veðmálasögu þessara tíu leikmanna hjá veðmálafyrirtækjum sem sæta eftirliti MGA.

Í greinargerð framkvæmdastjóra KSÍ kemur fram að gögnin sýni fram á tugi veðmála leikmannsins á leiki í mótum á vegum KSÍ á tímabilinu 17. janúar 2024 til 27. október s.á. Samkvæmt greinargerð er um að ræða 31 leik í Bestu deild karla, fjóra leiki í Mjólkurbikar og tvo leiki í Lengjubikar, og er Vestri þátttakandi í öllum þessum mótum. Með greinargerð sinni óskar framkvæmdastjóri KSÍ þess að aga- og úrskurðarnefnd taki mál leikmannsins til skoðunar og ákvarði hvort beita skuli viðurlögum í samræmi við 44. gr. laga KSÍ og/eða samkvæmt öðrum reglugerðum sambandsins.

Með greinargerð framkvæmdastjóra KSÍ fylgdu samskipti KSÍ við UEFA, leikmannasamningur leikmannsins við Vestra og yfirlit frá MGA yfir veðmál leikmannsins á tímabilinu 16. janúar 2024 til 5. nóvember 2024.

III.

Kærða var veittur sjö daga frestur til að skila greinargerð með bréfi dags. 7. mars 2025. Kærði skilaði sameiginlegri greinargerð með félagi sínu þann 10. mars 2025.

Í greinargerð kærða gengst hann við brotum á lögum og reglugerðum KSÍ og biðst afsökunar á þeirri rýrð sem háttsemi hans hefur varpað á knattspyrnuhreyfinguna. Kærði bendir á að hann hafi aldrei veðjað á eigin leiki, fjárhæðir hafi verið óverulegar og veðmálin verið gerð til skemmtunar án þess að leikmaðurinn hafi áttað sig á alvarleika þeirra. Þá er gerð athugasemd við talningu leikja í greinargerð framkvæmdastjóra KSÍ þar sem kærði telur leiki sem hann veðjaði á í efri hluta Bestu deildar í úrslitakeppni ekki teljast til leikja í eigin deild þar sem Vestri hafi leikið í neðri hluta. Þá er jafnframt bent á að leikir sem kærði veðjaði á í Lengjubikar hafi verið í öðrum riðli en Vestri lék í og að kærði hafi veðjað á leik í Mjólkurbikarnum eftir að Vestri féll úr keppninni.

Kærði krefst þess aðallega í greinargerð sinni að sér verði ekki gerð refsing í málinu. Til vara krefst kærði vægustu refsingar sem völ er á. Kærði vísar til þess að hann hafi aldrei veðjað á eigin leiki og ekki sé grunur um hagræðingu úrslita. Þá vísar kærði jafnframt til játningar sinnar og þess dráttar sem hefur orðið á meðferð málsins hjá KSÍ.

IV. Niðurstaða:

Í málinu liggur fyrir játning kærða um að hann hafi tekið þátt í veðmálastarfsemi í tengslum við eigið mót á tímabilinu 17. janúar 2024 til 27. október s.á. Af þeim sökum telur nefndin ekki sérstaka þörf á að fjalla um málsatvik umfram það sem að framan greinir.

Samkvæmt gr. 6.2. laga KSÍ er aðilum sem falla undir lögin og taka þátt í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti, í tengslum við eigin leiki og eigin mót. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 4.4. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót, en þar er tiltekið að aðilar sem taka þátt í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ sé óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti, í tengslum við eigin leiki og eigin mót. Enn fremur er að finna ákvæði sama efnis í staðalsamningi kærða við félag sitt, sbr. d-lið 1. gr. staðalsamnings KSÍ sem finna má í X. kafla reglugerðar KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna.

Með vísan til framangreinds er ljóst að þátttakendum í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ, þar með talið leikmönnum, er óheimilt að taka þátt í getraunaleikjum hjá eigin liði og í eigin mótum á vegum KSÍ. Í grein 44.2 í lögum KSÍ eru tilgreind viðurlög sem unnt er að beita gagnvart einstaklingum vegna brota á lögum og reglugerðum KSÍ. Í 12. gr. reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál eru nánar tilgreind þau viðurlög sem nefndin getur beitt í kærumálum.

Með játningu kærða telst sannað að kærði hafi gerst brotlegur við grein 6.2 í lögum KSÍ, grein 4.4. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót og d-lið 1. gr. staðalsamnings KSÍ. Við ákvörðun viðurlaga horfir nefndin til þess að kærði hefur gerst brotlegur gagnvart ákvæðum laga og reglugerða KSÍ sem er ætlað er að standa vörð um heilindi og háttvísi í knattspyrnuhreyfingunni. Þegar aðili, sem fellur undir lögin, gerist uppvís um þátttöku í veðmálastarfsemi í tengslum við eigið mót brýtur það gegn grundvallarreglu um heiðarlegan leik gagnvart öllum þátttakendum leiksins. Ákvæði gr. 6.2 í lögum KSÍ og gr. 4.4 í reglugerð um knattspyrnumót kveður skýrt á um að óheimilt sé að taka þátt í veðmálastarfsemi í tenglum við eigin leiki og eigin mót. Engin greinarmunur er gerður á því hvort lið kunni að vera fallið úr tilteknu móti eða skipting hafi átt sér stað innan móts. Nefndin telur með vísan til framangreinds það ekki hafa sérstaka þýðingu í málinu að Vestri hafi leikið í neðri hluta Bestu deildar í úrslitakeppni og að hluti þeirra leikja sem kærði hafi veðjað á hafi verið leikir í efri hluta úrslitakeppninnar, enda eru allir leikir innan sama móts. Hið sama má segja um veðmál kærða á leiki innan annarra móta sem Vestri var þátttakandi í.

Kærði hefur á um níu mánaða tímabili gerst sekur um ítrekuð brot gegn framangreindum ákvæðum. Um er að ræða 31 leik í Bestu deild karla, fjóra leiki í Lengjubikar karla og einn leik í Mjólkurbikar karla. Í mörgum tilvikum er um að ræða fleiri en eitt veðmál á hvern þessara leikja. Óumdeilt er að kærði hefur ekki stundað veðmálastarfsemi á eigin leiki en nefndin telur engu að síður að um sé að ræða alvarleg brot á reglum sem er ætlað að standa vörð um heilindi og ásýnd íþróttarinnar.

Í málinu liggur fyrir játning af hálfu kærða við framangreindum brotum og iðrun fyrir að varpa rýrð á knattspyrnuhreyfinguna með þátttöku sinni í veðmálastarfsemi sem laut að eigin mótum. Þá liggur jafnframt fyrir að málið hefur verið lengi til vinnslu innan KSÍ. Gögn málsins bera með sér að KSÍ hafi fengið veðmálasögu kærða frá UEFA og MGA þann 3. desember 2024. Greinargerð framkvæmdastjóra er dags. 7. mars 2025 og ekkert fram komið sem skýrir þennan drátt á málinu. Aga- og úrskurðarnefnd telur rétt að skýra þennan drátt á málinu kærða til hagsbóta við ákvörðun viðurlaga

Við ákvörðun viðurlaga tekur nefndin tillit til alls framangreinds sem og þess að ekkert liggur fyrir um að kærði hafi með brotum sínum reynt að hagræða úrslitum leikja.

Hefur aga- og úrskurðarnefnd ákveðið með vísan til gr. 44.2 í lögum KSÍ, sbr. c-lið gr. 12.1 í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál, að úrskurða Elmar Atla Garðarsson í bann frá allri þátttöku í knattspyrnu á tímabilinu 18. mars 2025 til og með 18. maí 2025.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×