Skoðun

Týndir hælis­leit­endur

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar

Rúmlega 150 einstaklingar sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd hér á landi eru týndir í kerfum lögreglunnar samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra og birtar voru í fjölmiðlum nýlega. Alls eru 367 hælisleitendur í landinu sem fengið hafa endanlega synjun um alþjóðlega vernd og samkvæmt þessum tölum er því ekki vitað hvar um helmingur þeirra er niðurkominn.

Gera má ráð fyrir því einhverjir úr þeim hópi séu farnir úr landi en augljóst er að a.m.k. tugir einstaklinga eru enn í landinu og fari huldu höfði. Það er mjög brýnt að málið sé skoðað nánar og gera má ráð fyrir því að dómsmálaráðherra sé með það í farvegi.

Ég tók málið upp á Alþingi í gær og hef lagt fram fyrirspurn til ráðherra um stöðuna. Það er mikið áhyggjuefni að vita til þess að svo margir séu óskráðir í landinu. Ekki síst er sárt til þess að hugsa að í hópnum geti verið einstæðar mæður með börn. Það er ótækt að vita ekki um afdrif þeirra.

Hér á landi hafa komið upp tilvik þar sem einstaklingar úr hópi hælisleitenda, einkum einstæðar mæður, hafi verið misnotaðar, jafnvel sem þrælar inni á heimilum. Auk þess eru dæmi um að aðrir einstaklingar hafi verið fórnarlömb annars konar mansals.

Þess vegna er brýnt að upplýsingar um afdrif og stöðu þessa fólks liggi fyrir. Það væri fróðlegt að vita hvernig aðstæðum þeirra sem bíða brottflutnings sé háttað. Hvort að þar sé unnin markviss vinna til að styrkja þau og styðja við heimferð þeirra þannig að minni líkur séu á að fólkið láti sig hverfa eða sé falið. Það þarf markvisst eftirlit með hælisleitendum í þessari stöðu því að dæmin sanna að því miður eru einhverjir tilbúnir að misnota sér aðstöðu þeirra. Hvert og eitt slíkt tilvik er einu tilviki of mikið.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.




Skoðun

Sjá meira


×