Neytendur

Mat­vöru­verð tekur stökk upp á við

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Það kostar sitt að kaupa nammi.
Það kostar sitt að kaupa nammi. Vísir/Vilhelm

Dagvöruvísitala hækkaði um 0,22% á milli mánaða samkvæmt nýrri úttekt verðlagseftirlits ASÍ. Um er að ræða nokkurn viðsnúning frá mælingu eftirlitsins sem gerða var í síðustu viku þegar hækkun milli mánaða stóð í stað. Meðal þess sem hækkar mest er innfluttur ostur, kjúklingur, tómatar í lausu og sælgæti. Ávextir hafa hins vegar lækkað í verði.

Dagvöruvísitalan skoðar verðlagshækkun miðað við meðal vöruverð hvers mánaðar. Ef heilsudagar Nettó eru undanskildir nemur hækkunin frá í janúar um 0,62%. „Frá undirritun kjarasamninga í mars síðastliðnum hefur mánaðarhækkun í Krónunni nær undantekningarlaust verið minni en í Bónus. Í nýjustu tölum í febrúar er þessi mynd aðeins breytt. Sem stendur er mánaðarhækkun Krónunnar frá janúar meiri en í Bónus. Verðlag í Krónunni hefur hækkað um 0,64% frá janúar og um 0,58% í Bónus. Hækkun milli mánaða er að heilsudögum loknum er um 0,8% í Nettó,“ segir meðal annars í tilkynningu verðlagseftirlitsins.

Hlutfall hækkana matvöruverðs var þó mun hærra í nóvember en verðhækkanir í Krónunni og Bónus skýrist af verðhækkun á um 7% af vöruúrvalinu samanborið við 8% í janúar sem er hærra hlutfall en hækkun var að jafnaði á fyrri helmingi síðasta árs. Hækkunin í nóvember í fyrra var hæta mánaðarhækkun á vísitölunni frá undirritun kjarasamninga í mars. Hækkanirnar nú eru því ekki á jafn breiðum grunni og nú. 

Þeir flokkar sem vega þyngst í hækkun vísitölunnar frá janúar eru tilbúnir réttir, sælgæti og fuglakjöt. Einn flokkur, ávextir, hefur áhrif til lækkunar. Í Krónunni er talsverð hækkun í flokknum ostar, og í Bónus í flokknum grænmeti ræktað vegna ávaxtar. Er hér miðað við nýjustu gögn, ekki meðalgögn febrúarmánaðar.

Febrúarhækkanir má meðal annars rekja til 23% hækkunar á Arla Havarti osti í Krónunni en varan hafði áður lækkað jafnt og þétt í verði frá í ágúst. Sami ostur hækkaði ekki hjá Bónus. „Président Brie „sterkari“ var seldur á lækkuðu verði í Krónunni í janúar en er nú aftur á fyrra verði, 43% dýrari. Tómatar í lausu hækkuðu um 63% milli mánaða í Bónus. Í Krónunni er verðið á tómötum í lausu óbreytt frá jólum.“

Miklar verðhækkanir mælast einnig á Holta kjúklingi en vörur frá Holta eru meðal þeirra sem hækka mest frá janúar. Þannig hækkaði Holta heimshorna kjúklingur í Krónunni um 5 til 14% í janúar. Ferskt kjúklingakjöt hækkar einnig í verði. Réttir frá 1944 hækka um það bil um 2% frá janúar, bæði hjá Krónunni og Bónus. 

Það gæti borgað sig að skipta út sælgæti fyrir ávexti fyrir þá sem vilja passa upp á budduna.Vísir/Vilhelm

Sælgæti enn á uppleið en ávextir lækka

Sælgæti er þá einn þeirra vöruflokka sem hækkar hvað mest í verði milli mánaða. „Þar er vagninn dreginn af Kólus, en Þrista-stubbar hækka um 17% í Krónunni og Bónus og Þrista-kúlur um 14% bæði í Bónus og Krónunni. Kúlu-súkk hækkar um tæp 16% í Bónus og Krónunni. Freyju rískubbar hækka í annað skipti á árinu í Krónunni og hafa hækkað um rúman fjórðung í verði frá áramótum. Ýmsar vörur frá Góu-Lindu hækka í Bónus og Krónunni um 4-11%,“ segir í tilkynningunni.

„Þótt heilsutengdum útsölum sé flestum lokið má spara einhverjar krónur á því að skipta út sælgæti fyrir ávexti. Pink Lady epli í Bónus lækka um 17% og um 14% í Krónunni. Aðrir ávextir sem lækka í verði eru mangó (Krónan, 7%), Kiwi (Bónus, 10%), kiwi (Krónan, 11%) og rauð vínber (Bónus, 10%).“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×