Viðskipti innlent

Þrír for­stöðu­menn til starfa hjá Ís­lands­banka

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Guðmundur Böðvar Guðjónsson, Bjarney Anna Bjarnadóttir og Sverrir Már Jónsson.
Guðmundur Böðvar Guðjónsson, Bjarney Anna Bjarnadóttir og Sverrir Már Jónsson. Samsett

Þrír nýir forstöðumenn hafa gengið til liðs við Íslandsbanka. Sverrir Már Jónsson tekur við sem forstöðumaður eigin viðskipta, Bjarney Anna Bjarnadóttir sem forstöðumaður samskipta og greiningar og Guðmundur Böðvar Guðjónsson hefur störf sem forstöðumaður markaðsmála.

Sverrir Már Jónsson hefur tekið við sem forstöðumaður eigin viðskipta Íslandsbanka. Hann hefur starfað á fjármálamarkaðinum í rúmlega tuttugu ár en þar af var hann í sextán ár hjá Landsbankanum. Frá árinu 2014 sá hann um hlutabréfastöðu í veltubók hjá Landsbankanum og færir sig nú yfir til að taka við forstöðumannastöðunni.

Sverrir lauk Cand.Oecon-gráðu með áherslu á fjármál hjá Háskóla Íslands árið 2004 og MSc Finance frá Cass Buisness School í Lundúnum árið 2005. Árið 2006 lauk hann löggildingu í verðbréfamiðlun.

Eftir breytingar innanhúss hjá Íslandsbanka hefur markaðs- og samskiptasviði verið skipt upp í tvær sjálfstæðar einingar.

Bjarney Anna Bjarnadóttir hefur tekið við starfi forstöðumanns samskipta og greiningar en undir þá einingu heyra samskiptamál, fjarskiptatengsl, fræðslumál og greining Íslandsbanka. Bjarney Anna hefur starfað hjá bankanum frá árinu 2023 sem fjárfestingatengill en var áður lögmaður hjá BBA/Fjeldco. Bjarney Anna er með BA-gráðu og mastersgráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og hlaut hún málflutningsréttindi árið 2012.

Guðmundur Böðvar Guðjónsson tekur við starfi forstöðumanns markaðsmála en frá árinu 2024 hefur hann starfað sem deildarstjóri vörumerkis Íslandsbanka. Guðmundur stýrði áður markaðsmálum Sjónvarps Símans og þar áður var hann deildarstjóri á sölu- og markaðssviði Icelandair. Hann er með BSc-gráðu í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og MSc-próf í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×