Neytendur

Þróaði app til að hjálpa fólki í með­ferð þegar kerfið brást

Lovísa Arnardóttir skrifar
Stefán Ólafsson og Þórdís Rögn Jónsdóttir hjá Rekovy vinna saman að Bata.
Stefán Ólafsson og Þórdís Rögn Jónsdóttir hjá Rekovy vinna saman að Bata. Vísir/Einar

Bati er smáforrit sem hefur það markmið að styðja við einstaklinga með fíknisjúkdóm í bataferlinu. Hægt er að nota appið hvenær sem er í ferlinu og sníða það að sínum eigin þörfum. Frumútgáfa smáforritsins var gerð 2020 og var þá hugsuð til þess að auðvelda biðina hjá þeim sem biðu þess að komast í meðferð.

Verkefnið hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2021 en frá þeim tíma hefur það tekið miklum breytingum. Í dag er forritið í þróun hjá fyrirtækinu Rekovy sem þau Þórdís Rögn, Stefán Ólafsson og Ágúst Þór Þrastarson eiga. Í dag er Bati opið öllum, óháð því hvar í bataferlinu fólk er.

„Appið er komið í Play og App store og við stefnum á að gefa út enn betri útgáfu út frá athugasemdum frá notendum í lok janúar eða byrjun febrúar. Við viljum endilega vekja meiri athygli á smáforritinu í kringum edrúar mánuðinn í febrúar svo að sem flestir viti að það stendur til boða, alveg frítt,“ segir Þórdís Rögn, stofnandi Rekovy, sem stendur að baki þróun smáforritsins.

Hefur breyst frá fyrstu skrefum

Hún segir markmið verkefnisins hafa verið að hanna og þróa frumgerð að hugbúnaði til þess að aðstoða skjólstæðinga meðan þeir biðu eftir að komast í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi. Áhersla hafi verið lögð á að bæta samskipti við skjólstæðinga með rafrænum sjálfvirkum skilaboðum ásamt því að veita þeim greiðan aðgang að þeim úrræðum sem eru í boði, hvatningu og aðstoð í aðdraganda meðferðar sem höfðar til hvers og eins.

Frumgerðin var unnin í nánu samstarfi við starfsfólk SÁÁ og einstaklinga sem hafa reynslu af því að bíða eftir innlögn. Síðan þá hefur verkefnið verið kynnt fyrir verkefnastjóra áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis.

Í forritinu er hægt að halda utan um fjölda daga sem fólk hefur verið í bataferlinu, skrá inn í sparnaðarteljara og stunda hugleiðslu.

„Þú getur skrifað niður af hverju þú vilt vera í bata og svo geturðu fylgst með líðan, svefni og hreyfingu og gert slökunar- og hugleiðsluæfingar,“ segir Þórdís Rögn

Fólk getur alveg stýrt því sjálft hvað það sér á heimaskjá.Vísir/Einar

Þau segja notendur alveg geta stýrt því sjálf hvað þeir gera í appinu. Sem dæmi geti þau alveg stýrt því hvað þau sjái á heimaskjá þegar þeir opna forritið. Sumir vilji til dæmis ekkert vita hvað þau eru að spara eða hafa ekki áhuga á þakklætisdagbók. Þórdís segir dagateljarann vinsælastan eins og stendur og hugleiðslu- og slökunaræfingarnar.

Vilja endurgjöf notenda

Notendur eru um 360 í dag en Þórdís segir þau vilja fá fleiri notendur, og endurgjöf líka.

„Að þróa smáforrit er ekki eins og að þróa stól sem að svo bara tilbúinn og þú afhendir í búðir. Heldur er smáforrit eitthvað sem þú þróar áfram. Við höfum þegar unnið þetta náið í samstarfi við skjólstæðinga SÁÁ og starfsfólk og höfum alltaf miðað við það að þróa þetta áfram í samvinnu við fólk sem vill nota lausnina. Þannig við viljum endilega heyra í fólki hvað má bæta,“ segir Þórdís.

Á sama tíma og þau eru að betrumbæta forritið fyrir almenna notkun eru þau að vinna að sérstakri lausn í forritinu fyrir þau sem eru á leið í framhaldsmeðferð hjá SÁÁ.

„Við fengum nýlega styrk frá Rannís sem heitir Sproti. Hann á að nýtast í þetta innleiðingarverkefni hjá SÁÁ sem snýr að því að stafrænivæða útskriftaráætlun skjólstæðinga,“ segir Þórdís.

Þannig muni þau þróa sérstakt viðmót fyrir starfsmenn svo þeir geti haft betri innsýn í bataferlið hjá skjólstæðingum og geta stutt enn betur við þau í þessari framhaldsmeðferð.

Hægt er að fylgjast með viðburðum, skrá inn árangur og sparnað í appinu.Vísir/Einar

Bati verður þá hluti af framhaldsmeðferð SÁÁ til að bæta þjónustuna, sérstaklega fyrir fólk sem býr á landsbyggðinni og hefur ekki aðgang að göngudeildinni Von í Reykjavík.

„Við erum enn þá í góðu samstarfi við SÁÁ og höfum einnig hafið samtal við Krýsuvík og Landspítalann,“ segir Þórdís.

Samhliða þessu verkefni munu þau rannsaka hvaða áhrif það hefur að nota appið og hvort fólk er líklegra til að halda áfram í framhaldsmeðferð og hvort það viðheldur henni frekar með notkun á appinu. Það er hluti af langtímaverkefni og rannsókn og á eftir að koma betur í ljós þegar fólk byrjar að nota forritið.

Samfella í meðferð mikilvæg

„Þessi samfella í meðferð er mjög mikilvæg, að fólk haldi áfram að vinna í sínum bata, og við teljum að þetta geti verið stuðningstæki,“ segir Stefán.

Þórdís segist sjálf þekkja það vel að þörf sé á fjölbreyttum lausnum fyrir fólk í þessari stöðu. Hún bendir á að um níu prósent einstaklinga yfir 17 ára aldri hafi leitað til Vogs og því líklegt að flestir þekki einhvern sem hafi þurft á þjónustunni.

„Ég held það sé óhætt að segja að við þekkjum öll einhvern sem hefur farið í meðferð á einhverjum tímapunkti. Ég upplifði það sjálf hvernig heilbrigðiskerfið brást nánum ættingja. Ég slysaðist út í þetta verkefni en það var aldrei aftur snúið eftir að ég sá vandamálin og áskoranirnar, en líka tækifæri til umbóta í kerfinu.“

Stefán tekur undir það

„Ég hef mikinn áhuga á því að nota tækni til góðs. Tækni er ekki bara tækni. Þetta er verkfæri sem allir nota. Það eru allir til dæmis með snjallsímann í vasanum og af hverju ekki að gera fólki auðveldara fyrir að halda utan um þessi mál, eins og hver önnur.“

Hægt er að fylgjast með þeim á Instagram hér. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×