Sport

Fury segist vera hættur ... aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyson Fury vann 34 af 37 bardögum sínum á atvinnumannaferlinum. Einn endaði með jafntefli og tveir töpuðust, báðir gegn Oleksandr Usyk.
Tyson Fury vann 34 af 37 bardögum sínum á atvinnumannaferlinum. Einn endaði með jafntefli og tveir töpuðust, báðir gegn Oleksandr Usyk. getty/Justin Setterfield

Fyrrverandi heimsmeistarinn í þungavigt, Tyson Fury, segist vera búinn að leggja hanskana á hilluna.

Fury tapaði fyrir Oleksandr Usyk í desember. Það var annað tap hans fyrir Úkraínumanninum á síðasta ári en það voru einu töp hans á ferlinum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Fury, sem er 36 ára, lýsir því yfir að hann sé hættur en hann gerði það einnig eftir að hafa sigrað Dillian Whyte í apríl 2022. Hann sneri aftur hálfu ári seinna.

Vegna þess taka margir nýjustu tilkynningu Furys með nokkrum fyrirvara. Meðal þeirra er Eddie Hearn, umboðsmaður Anthonys Joshua. Þeir Fury hafa aldrei mæst en möguleikinn á bardaga þeirra hefur lengi verið til staðar. En nú gæti hann verið úr sögunni.

Frank Warren, umboðsmaður Furys, kvaðst ekki hafa rætt við Fury áður en hann tilkynnti að hann væri hættur.

„Ég hef alltaf sagt að ég muni ekki reyna að hafa áhrif á hann,“ sagði Warren við BBC.

„Ef þetta er það sem hann vill gera er það frábært. Hann hefur gert allt sem hann getur gert. Hann er líklega besti breski þungavigtarboxari sinnar kynslóðar. Tvöfaldur heimsmeistari, tveir spennandi bardagar gegn Usyk. Hann á nægan pening og indæla fjölskyldu. Guð blessi hann.“

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×