Enski boltinn

Mærði hetju United: „Líf þitt getur breyst á einni viku“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Altay Bayindir fagnar eftir að hafa varið vítaspyrnu Kais Havertz.
Altay Bayindir fagnar eftir að hafa varið vítaspyrnu Kais Havertz. getty/James Gill

Altay Bayindir, markvörður Manchester United, var skúrkurinn þegar liðið tapaði fyrir Tottenham í deildabikarnum í síðasta mánuði. Í gær var hann hins vegar hetja United þegar liðið sló Arsenal úr leik í bikarkeppninni. Knattspyrnustjóri Rauðu djöflanna, Ruben Amorim, hrósaði Bayindir í hástert eftir leikinn á Emirates.

Þrátt fyrir að vera manni færri í klukkutíma hélt United jöfnu gegn Arsenal og hafði svo betur í vítaspyrnukeppni. Bayindir varði eina spyrnu í vítakeppninni, frá Kai Havertz, og í venjulegum leiktíma varði hann víti fyrirliða Arsenal, Martins Ødegaard.

„Lífið sem fótboltamaður kemur í bylgjum og augnablikum,“ sagði Amorim eftir leikinn í gær og vísaði til mistaka Bayindirs gegn Tottenham í desember. Þar fékk hann meðal annars á sig mark beint úr hornspyrnu.

„Stundum getur líf þitt breyst á einni viku og þú sérð það með Altay. Gegn Tottenham voru allir að bíta sig í fingurna vegna hans, og ég skil það, og í dag var hann hetja okkar. Hann er góður strákur sem leggur hart að sér og lífið er fallegt. Allir leikmennirnir í liðinu fá tækifæri og eru lánsamir því þeir spila fyrir Manchester United. Það skiptir ekki máli hvort þú spilar einn leik eða níutíu; það er alltaf gleði sem fylgir því að spila fyrir þetta félag.“

Bayindir kom til United frá Fenerbahce í september 2023. Hann hefur aðeins spilað fimm leiki fyrir Rauðu djöflana, alla í bikarkeppnum.

Hinn 26 ár Bayindir hefur leikið tíu leiki fyrir tyrkneska landsliðið.


Tengdar fréttir

„Við fengum ekki það sem við áttum skilið“

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal sagði liðið haft mikla yfirburði í leik dagsins gegn Manchester United. Arsenal tapaði eftir vítakeppni og féll úr leik í FA-bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×