Erlent

Fyrstu börn Beta-kynslóðarinnar fæðast á morgun

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Beta-börnin munu væntanlega upplifa mikla framþróun í sýndarveruleikatækni sem og annarri tækni.
Beta-börnin munu væntanlega upplifa mikla framþróun í sýndarveruleikatækni sem og annarri tækni. Getty

Fyrstu börn nýs árs verða jafnframt fyrstu börnin sem tilheyra nýrri kynslóð, Beta-kynslóðinni. Þau munu lifa með gervigreind frá blautu barnsbeini og finna fyrir alvarlegum afleiðingum hamfarahlýnunar.

Lesendur Vísis eru kannski bara nýbúnir að frétta af Alpha-kynslóðinni en það eru börn fædd á bilinu 2010 til 2024. Næsta kynslóð tekur við 1. janúar 2025 og mun teygja sig alveg fram til 2039.

Framtíðarfræðingurinn Mark McCrindle, sem fann upp á hugtakinu Alpha-kynslóð árið 2008, segir í bloggfærslu að Beta-kynslóðin muni „erfa heim sem tekst á við gríðarstórar félagslegar breytingar“. 

Þau muni þurfa að takast á við hamfarahlýnun, stórar breytingar á fólksfjölda og hraða þéttbýlisþróun víða um heim.

Á meðan Alpha-börnin fæddust inn í heim þar sem snjallsímar höfðu algjörlega tekið við af hefðbundnum símum þá munu Beta-börnin fæðast í enn snjallvæddari heim þar sem gervigreind fer sífellt vaxandi. Beta-börnin munu því upplifa gríðarlega spennandi en ógnvekjandi tíma og mörg þeirra munu lifa fram á 22. öld. 

En þau munu líka missa af ýmsu. Þau munu til að mynda ekki fá að sjá margar af glæstustu íþróttastjörnum okkar tíma leika sína íþrótt, svo sem Serenu Williams, Roger Federer, Simone Biles, Lionel Messi, Cristiano Ronaldo og LeBron James (þó síðustu þrír sprikli kannski eitthvað næstu þrjú árin). En þau munu vafalaust sjá eitthvað stórkostlegt í staðinn.

Skil milli ólíkra kynslóða eru oft ekki alveg skýr en síðustu kynslóðir eru gróflega á þessa leið:

  • Baby Boomers er fólk sem fætt er á tímabilinu 1946 til 1964.
  • Kynslóð X er fólk fætt frá 1965 til 1979.
  • Aldamótakynslóðin er fædd frá 1980 til ársins 1994.
  • Zeta-kynslóðin er fólk sem er fætt 1995 til 2009.
  • Alfa-kynslóðin er fædd á bilinu 2010 til 2024
  • Beta-kynslóðin tekur við 2025 og teygir sig til 2039



Fleiri fréttir

Sjá meira


×