Skoðun

Er ekki bara best að hætta þessu bulli og kjósa?

Óli Valur Pétursson skrifar

Ég fagna ályktun hreyfingarinnar (áður þekkt sem Vinstrihreyfingin grænt framboð) að slíta stjórnarsamstarfinu og boða til kosninga í vor. Ég var hluti að ályktun sem að miðstjórn Ungs jafnaðarfólks sendi frá sér, þar sem kallað var eftir kosningum í apríl síðastliðnum þegar að fyrrum forsætisráðherra ákvað að hoppa frá borði og fara frekar í forsetaframboð. Ekki hefur verið fallið frá þeirri kröfu.

Þó að ég fagni ályktun hreyfingarinnar þá er greinilegt að hún hafi verið geld á landsfundi. Að segja „æskilegt sé að boða til kosninga í vor“ er ekki loforð um kosningar heldur gylliboð fyrir fólkið í landinu sem að á skilið og þráir breytingar. Þjóðin gæti því setið uppi með óstarfhæfa ríkisstjórn fram í september á næsta ári.

Traust ríkisstjórnarinnar hefur aldrei verið minna og liggur við að landsfundur hreyfingarinnar hafi verið ákveðin púðurtunna inn í stjórnarsamstarfið. Ástandið var eldfimt fyrir en dagana eftir landsfund eru stjórnarflokkarnir lítið búnir að gera annað en að grafa djúpar skotgrafir og kenna hvort öðru um slæmt gengi ríkisstjórnarinnar. Á meðan að ríkistjórnarflokkarnir rífast blæðir heimilum landsmanna út.

Ríkisstjórnarsamstarfið sem virðist hanga saman á frasanum „það eru mikilvægir málaflokkar sem þarf að vinna að“. GUÐ BLESSI ÍSLAND! Ríkisstjórnin hefur ekki getað sinnt mikilvægum málaflokkum í sjö ár og er að öllum líkindum ekki að fara ná að vinna saman í dauðateygjunum.

Ríkisstjórnarsamstarfið er löngu komið á leiðarenda og æskilegt að boða sem fyrst til kosninga. Fólkið í landinu á betra skilið.

Höfundur situr í framkvæmdarstjórn Ungs jafnaðarfólks.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×