Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Útvarpið fer í gang kl 06:45 og hefur gert það síðan ég man eftir mér. Ég fer á fætur nokkrum mínútum síðar.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Kveiki á sjónvarpinu og hef erlendar viðskiptastöðvar í gangi. Ég tek mér passlegan tíma að hafa mig til, borða ekki morgunmat, frekar einföld rútína og fer brattur inn í daginn.“
Á skalanum 1-10, hversu morgunhress eða morgunfúll ertu?
Sennilega 8!
Mér hefur alltaf þótt morgnarnir besti tími dagsins á allan hátt.
Ég vakna kátur og spenntur fyrir deginum og næ mestu í verk fyrri hluta dagsins. Er með gott jafnaðargeð og jafn hress allan daginn.
Það eru helst kvöldin sem ég verð snemma þreyttur og er þá frekar kvöldsvæfur heldur en morgunfúll.“
Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Upplýsingatækni er skemmtilegasti geiri í heimi, þar er mikil fjölbreytni, stanslausar nýjungar og miklar breytingar. Við höfum verið að umbreyta OK og stilla saman strengi eftir sameiningar og erum núna á fullri ferð til sóknar. Það eru mörg risa verkefni framundan og gríðarlega spennandi hlutir í gangi.
Gervigreindin er mjög heitt viðfangsefni alls staðar, hvort sem snýr að vél- eða hugbúnaði. Við erum til að mynda með viðburð í samstarfi við HP í næstu viku þar sem förum í gegnum mikilvæg atriði eins og gervigreind og sjálfbærni en HP er fremst í heimi í vélbúnaði er snýr að þessum málum. Fyrirtæki og stofnanir eru í krefjandi heimi að leita leiða til að hagræða og auka öryggi í sínum rekstri og það er einmitt okkar sérstaða á markaði. Það er ekkert nema fjör næstu mánuðina.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég held vel skipulagi og nota dagbókina í Outlook bæði fyrir fundi og önnur verkefni. Daginn áður fer ég vel yfir planið og stilli hausinn inn á þau verkefni sem liggja fyrir.
Hef tamið mér að klára fyrst einföldu og leiðinlegri verkefnin sem við vitum að fara aldrei og þarf að klára.
Óreiða og óskipulag truflar mig mikið enda finnst mér sérstaklega gaman að koma skipulagi á flest allt í vinnunni og lífinu almennt.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég tek aldrei stutta lúra, verð alveg vonlaus ef ég sofna seinni partinn eða snemma kvölds. Dríf mig næstum alla daga í ræktina eftir vinnu og nýti kvöldin oftast með mismundi slökun. Því er markmiðið alltaf að vera kominn upp í rúm ekki seinna en klukkan ellefu. Ég er frekar agaður og passa vel upp á að ná góðum svefni enda er það eitt af lykilatriðum sem hefur áhrif á árangur í öllu sem maður tekur sér fyrir.“