Einar Örn Ólafsson, forstjóri félagsins, segir skráningu Play á aðalmarkað marka tímamót í sögu félagsins. „Liður í skráningunni var hlutafjáraukning snemma í vor sem gekk mjög vel og við bjóðum nýja hlutahafa innilega velkomna í hópinn. Við einblínum á að halda kostnaðargrunni lágum og samkeppnishæfum sem er og verður lykilatriði fram veginn, ásamt því að styrkja undirstöður í rekstri,“ er haft eftir Einari í tilkynningunni.

Þá býður Magnús Harðarson, forstjóri Nastaq Iceland, félagið velkomið á aðalmarkað. „Skráning á Aðalmarkað veitir félaginu enn meiri sýnileika og trúverðugleika sem og aðgang að breiðari hópi fjárfesta en áður. Við óskum félaginu og hluthöfum innilega til hamingju og hlökkum til að styðja við félagið á áframhaldandi vegferð þess,“ er haft eftir Magnúsi í tilkynningunni.

Miklar skipulagsbreytingar hafa orðið hjá Play undanfarna mánuði. Forstjóraskipti urðu í apríl og þrír framkvæmdastjórar hafa horfið á braut. Play tapaði milljarði króna á öðrum ársfjórðungi en Einar Örn Ólafsson, forstjóri og stór hluthafi í Play, segir stöðu flugfélagsins trausta. Vísaði hann í lausafjárstöðu upp á sjö milljarða íslenskra króna.