Ásdís Ýr Pétursdóttir forstöðumaður samskipta hjá Icelandair segir félagið hafa tilkynnt um fyrirhugaðar uppsagnir flugmanna eftir að gengið var frá mönnun flugmanna fyrir veturinn. Hún segir flugmennina 57 munu láta af störfum þann 1. október. Þá munu 26 flugstjórar færast í stöðu flugmanns tímabundið í vetur.
Aðspurð hvað komi til segir hún uppsagnirnar í takt við árstíðasveiflu félagsins. Að sjálfsögðu sé leiðinlegt að sjá eftir svo mörgum en félagið geri ráð fyrir að geta boðið flugmönnunum störf aftur næsta vor. Uppsagnir af þessu tagi hafi viðgengst reglulega í gegn um tíðina.
Fréttastofa hafði samband við Jón Þór Þorvaldsson formann Félags íslenskra atvinnuflugmanna vegna uppsagnanna. Hann vildi ekki tjá sig að svo stöddu en hyggst funda með félagsmönnum um málið í komandi viku.