Í fréttum Stöðvar 2 var flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli heimsótt. Þar inni var Boeing 757-þota, TF-LLW, í viðhaldi eftir að hafa lokið þremur þriggja vikna hnattreisum. Sú var merkt National Geographic en Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða, segir vélarnar oftast merktar viðskiptavinum; ferðaskrifstofum sem sérhæfa sig í lúxusferðum fyrir efnafólk.

„Þetta eru mest amerískar ferðaskrifstofur. En svo erum við með viðskiptavini í Ástralíu, Indlandi, Brasilíu, Hollandi, Þýskalandi.. út um allt,“ segir Árni.
Framan af voru Loftleiðir bara með eina flugvél hluta úr ári í svona lúxusferðum en núna eru þær orðnar þrjár allt árið. Hnattreisurnar í heild 83 talsins frá upphafi. Og Loftleiðavélarnar hafa meira að segja lent á Suðurpólnum.

„Þetta hefur ekki verið mikil markaðssetning. Þetta hefur bara spurst út. Þetta er ekkert rosalega stór heimur. Flestir okkar nýju kúnna sem eru að koma hafa bara frétt af okkur einhversstaðar annarsstaðar.“
Þetta eru ýmist hnattreisur eða sérferðir um einstaka heimsálfur þar sem farþegum er boðið upp á lúxussæti. Í flugvél sem gæti borið tvöhundruð farþega eru sætin ýmist bara áttatíu eða jafnvel fimmtíu.
„Þetta er mjög dýrt. En við leigjum bara út vélina. Við sjáum ekkert um að selja sætin,“ segir Árni.

Hann segir að þriggja til fjögurra vikna lúxusferð kosti frá 80 þúsund og upp undir 200 þúsund dollara.
„Það eru 25 milljónir eða eitthvað á mann. Það er ekki bara flugið. Það eru öll hótel, matur og allt innifalið. En þetta er náttúrlega svakalega dýrt,“ segir Árni.
Flugið er á íslensku flugrekstrarleyfi og áhafnir skipaðar starfsmönnum Icelandair.
„Þetta er mun stærri áhöfn en venjulega. Við erum með þrjá flugmenn, sex til sjö flugfreyjur, einn flugvirkja um borð og tvo kokka. Þannig að það eru mjög margir sem koma að þessu.“

Verkefnið hefur verið eftirsótt hjá starfsfólki Icelandair. En það gæti breyst þegar ferðirnar eru orðnar þrjátíu á ári.
„Það hefur verið slegist um þetta að komast í þessar ferðir. En þegar þetta eru orðnar svona margar ferðir þá fer að verða aðeins flóknara að manna þetta. Því að þú ert auðvitað þrjár fjórar vikur í burtu,“ segir Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: