Viðskipti innlent

Fyrr­verandi for­stjóri Bláfugls stýrir nýju sviði hjá Play

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigurður Örn mun hafa það hlutverk að leiða frekari þróun þvert á öll svið flugfélagsins.
Sigurður Örn mun hafa það hlutverk að leiða frekari þróun þvert á öll svið flugfélagsins.

Flugfélagið PLAY hefur ráðið Sigurð Örn Ágústsson, fyrrverandi forstjóra Bláfugls, sem framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar. Um er að ræða nýtt svið innan flugfélagsins en Sigurður Örn mun hafa það hlutverk að leiða frekari þróun þvert á öll svið flugfélagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Þar kemur fram að Sigurður eigi að baki langan feril í flugrekstri. Hann hafi áður verið forstjóri og stjórnarformaður Bláfugls ásamt því að sitja í stjórn Avion Express. Hann átti einnig stóran þátt í samningaviðræðum og undirbúningi nokkurra stórra fyrirtækjakaupa fyrir Avia Solutions Group (ASG), þar með talið Avion Express, SmartLynx og Bláfugl.

„Það er virkilega spennandi að ganga til liðs við PLAY á þessum tíma. Félagið hefur vaxið hressilega síðustu ár, þar á meðal tvöfaldaði það tekjur sínar í fyrra og hefur á sama tíma náð að halda kostnaðargrunni sínum samkeppnishæfum. PLAY er því vel í stakk búið til að ná enn lengra á komandi misserum og árum og ég finn að eigendur og starfsfólk hafa mikinn metnað til þess. Ég hlakka virkilega til að taka þátt í því verkefni,” segir Sigurður Örn Ágústsson.

„Það er mikill happafengur að hafa fengið Sigurð Örn til liðs við okkur. Með honum fylgir dýrmæt þekking og reynsla úr flugbransanum sem ég er ekki í vafa um að eigi eftir að nýtast okkur vel. Við ætlum okkur stóra hluti og þessi nýi liðsstyrkur mun vafalaust hjálpa okkur á þeirri vegferð,” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×