Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna yfirleitt á milli klukkan hálf sjö og sjö.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Bestu morgnarnir eru þeir sem ég byrja á að mæta í útileikfimi með eiginmanninum og nágrönnum mínum þar sem við tökum tabataæfingar með góðu spjalli um lífið og tilveruna. Þetta er svo góð byrjun á deginum þar sem adrenalínið frá æfingunum og skemmtilegar umræður gera það að verkum að ég verð mjög ánægð með hafa drifið mig út.
Aðra morgna byrja ég á að reyna að sannfæra mig um að taka æfingu í morgunsárið, en það tekst ekki alltaf og áframhaldandi kúr verður ofan á. En þeir morgnar eru líka góðir. Þá fæ ég mér kaffi og ristað brauð og tek gott spjall og þriðju vaktar skipulag með eiginmanni og dætrum.“
Hvaða heimsfrægi leikari eða söngvari fannst þér rosalega flott/ur á unglingsárunum?
Ég var eiginlega ástfangin af John Taylor í Duran Duran um það leiti sem ég var að skríða inn á unglingsárin og öll þau sem hafa séð hann hljóta að skilja af hverju.
Hann var ekki bara fallegur heldur líka óstjórnlega töff.
Ég sótti stíft í að nálgast efni þar sem ég gat litið kappann augum og beið spennt eftir nýju Bravo blaði í hverri viku sem og Skonrokk þættinum sem var einu sinni í viku á RÚV þar sem tónlistarmyndbönd með Duran Duran voru frumsýnd.
Ég tók þessa þætti upp á VHS tækið okkar og gat svo hámhorft á goðið aftur og aftur og dáðst af því hversu mikill töffari hann var.
Hann var alltaf yfirvegaður og cool í hvaða aðstæðum sem hann fann sig í, hvort sem það var á seglbát í karabíska hafinu að syngja RIO, í fjötrum á bílþaki í Wild Boys, eða í bleikum jakkafötum með kassagítar á fallegri strönd í Save a Prayer.
Ég hvet ykkur til að kíkja á þessi myndbönd og ég lofa þið verðið ekki ósnortin yfir JT.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég vinn alla daga í því að byggja upp eftirsóknarverðan vinnustað fyrir stórhuga og fjölbreytta liðsheild hjá Veitum. Við erum að vinna í því á fullu að styðja samfélagið í að búa til umhverfi þar sem íbúar og fyrirtæki á okkar veitusvæðum blómstri.
Auk þess erum við að vinna mjög markvisst að því þessa dagana að stuðla að aukinni sjálfbærni með því til dæmis að nýta auðlindirnar sem okkur er trúað fyrir eins vel og hægt er sem og að vera aflvaki orkuskipta sem eru jú lykilþáttur í að ná tökum á loftslagsvánni.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég er nú alls ekki þekkt fyrir að vinna mjög skipulega en hins vegar vinn ég mjög stefnumiðað þannig að skipulagið mitt einkennist af því að forgangsraða langtímaverkefnum og „just do it” málum til að raungera stefnu Veitna.
Ég hef gælunafnið „JUST DO IT“ í Orkuveitu samstæðunni!
Ég hef oft reynt að setja upp allskonar skipulag sem hentar öðru fólki eins og til dæmis litaðri dagbók, tékklistabók og fleira en einhvern veginn renna þessi áform mín út í sandinn og skipulagið “just do it “ tekur yfir.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég er rosalega kvöldsvæf og er yfirleitt byrjuð að undirbúa mig fyrir svefn fyrir klukkan tíu, get tekið eitt og eitt kvöld til miðnættis en borga yfirleitt fyrir það með vanlíðan ef þau verða of mörg.“