Körfubolti

Tap hjá Elvari og félögum gegn toppliðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar skoraði tólf stig fyrir Rytas.
Elvar skoraði tólf stig fyrir Rytas. Vísir/Hulda Margrét

Elvar Friðriksson átti ágætan leik fyrir Rytas sem tapaði í kvöld gegn Bonn í Meistaradeildinni í körfuknattleik.

Fyrir leikinn í kvöld hafði Rytas leikið tvo leiki í riðlinum. Þeir töpuðu á útivelli gegn BAXI Manresa frá Spáni en unnu heimaleikinn gegn tyrkneska liðinu Bahcesehir College. Bonn hafði hins vegar unnið báða leiki sína til þessa.

Leikurinn var jafn til að byrja með en í öðrum leikhluta náðu leikmenn Bonn áhlaupi og komust mest tuttugu og tveimur stigum yfir þó svo að Rytas hafi náð að minnka muninn í fimmtán stig fyrir hálfleik, staðan þá 54-39

Bonn hélt frumkvæðinu í síðari hálfleik en Rytas tókst þó smátt og smátt að minnka muninn. Í fjórða leikhluta tókst heimamönnum síðan að jafna metin og komast yfir í stöðunni 75-74.

Bonn komst í 81-79 þegar hálf mínúta var eftir og heimamenn misnotuðu þriggja stiga skot í næstu sókn. Þegar gestirnir komu leiknum síðan í tveggja körfu leik með þrettán sekúndur voru eftir var björninn unninn.

Lokatölur 86-79 og annað tap Rytas í riðlinum því staðreynd. Elvar Friðriksson lék í rúmar tuttugu og fimm mínútur í kvöld. Hann skoraði tólf stig, tók þrjú fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Næsti leikur Rytas er í Bonn í byrjun mars. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×