Skoðun

Er kynja­fræði lykillinn að fjöl­breyttara náms­vali?

Laufey Axelsdóttir, Arnar Gíslason, Sveinn Guðmundsson og Sæunn Gísladóttir skrifa

Í dag eru konur í meirihluta þeirra sem útskrifast úr námi á bæði framhalds- og háskólastigi. Ein skýring á lægra hlutfalli karla í háskólum snýr að brotthvarfi af framhaldsskólastiginu þar sem árlegt brotthvarf nýnema hefur verið meira meðal drengja en stúlkna sem má skýra með ólíkum einkunnum kynjanna við lok grunnskóla. 

Þá hefur kynbundið námsval verið áberandi á báðum skólastigunum. Þrátt fyrir öflugan lagaramma, jafnréttisáætlanir háskólanna, stefnur stjórnvalda og ýmis átaks- og hvatningarverkefni til að jafna námsval kynjanna og vinna gegn staðalímyndum í námsvali hefur ekki tekist að snúa þróuninni við. Á það einkum við um nám sem flokkast sem hefðbundin kvennafög. 

Tildrög þessara skrifa er nýútkomin skýrsla samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna, „Staðalímyndir í háskólum” sem unnin var af Laufeyju Axelsdóttur, nýdoktor í kynjafræði með styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í skýrslunni er fjallað um stöðu mála og lagðar fram tillögur að aðgerðum til að jafna hlutfall kynja í háskólanámi á Íslandi. 

Líkt og sjá má á mynd 1 hafa karlar undanfarna áratugi verið í minnihluta nemenda sem brautskrást með stúdentspróf (39-44%) en í meirihluta þeirra sem brautskrást með annað próf af framhaldsskólastigi (53-71%), eins og grunnpróf úr iðn, grunnpróf starfsgreina, réttindapróf starfsgreina, burtfararpróf úr iðn og sveinspróf (gögn fengin á vef Hagstofu Íslands).

Mynd 1. Hlutfall karla af brautskráðum nemendum á framhaldsskólastigi eftir próftegundum.

Á háskólastiginu hafa konur verið í meirihluta á flestum námssviðum en karlar eru í meirihluta nemenda í STEM greinum (vísindum, tækni, verkfræði og stærfræði). Hlutfall kvenna hefur aukist talsvert í þessum greinum undanfarna áratugi, m.a. vegna hvatningarverkefna sem háskólarnir hafa sett af stað. Árið 2020 voru konur um 43% brautskráðra nemenda í grunnnámi úr eðlisfræði, 36% í stærðfræði, 29% í tölvunarfræði og 33% í mannvirkja- og byggingarverkfræði. Staðan er hins vegar gjörólík í hefðbundnum kvennafögum eins og leikskólakennaranámi og hjúkrunar- og ljósmóðurfræði þar sem erfiðlega hefur gengið að fjölga körlum. Framan af var hlutfall brautskráðra karla úr leikskólakennaranámi á bilinu 0-5% en síðan 2016 hefur hlufall karla að mestu verið í kringum 10% brautskráðra nemenda úr faginu. Aftur á móti hefur hlutfall brautskáðra karla í hjúkrunarfræði haldist lágt og var 3% árið 2020. Átaksverkefni til að fjölga körlum í þessu námi hafa því borið takmarkaðan árangur.

Af hverju hafa átaksverkefnin síður virkað þegar kemur að hefðbundnum kvennafögum? Eru það launin sem þarf að leiðrétta? Bent hefur verið á að hefbundin kvennastörf séu verr launuð en hefðbundin karlastörf og að karlar fælist launakjör þessara starfa. Mikill munur getur verið á tekjum fólks á kynjuðum vinnumarkaði, og benti Þóra Kristín Þórsdóttir hjá BHM nýverið á að „139 milljón króna munur gæti verið á ævitekjum gagnkynja hjóna með jafn langa menntun sem hófu störf á sama tíma hjá ríkisstofnun.” Konan í þessu dæmi var með meistarapróf í heilbrigðisfagi en karlinn með meistarapróf í fagi sem er ekki hefðbundið heilbrigðis- eða velferðarfag (lögfræðingur/hagfræðingur/verkfræðingur). 

Þá virðist menntun skila konum takmörkuðum tækifærum til forystustarfa í atvinnulífinu og aukin menntun þeirra virðist lítil áhrif hafa á staðalímyndina um „karlstjórnandann“ eins og sjá má á mynd 2 (Gögn fengin á vef Hagstofu Íslands, vef Hæstaréttar Íslands, vef Stjórnarráðs Íslands og Alþingisvefnum).

Mynd 2. Hlutfall karla og kvenna í helstu áhrifastöðum samfélagsins á árunum 2017-2022.

En hvað er til ráða? Hvernig getum við jafnað námsval kynanna og stuðlað að jöfnum tækifærum til náms- og starfsvals? Höfundar benda sérstaklega á mikilvægi kynjafræðimenntunar á öllum skólastigum. Staðalímyndir eru takmarkandi og stuðla að einsleitri sýn á stúlkur og drengi og útiloka t.d. trans og kynsegin nemendur, fatlaða nemendur og nemendur með erlendan bakgrunn. Þekking á samfélagslegum væntingum um kynhlutverk og áhrifum staðalímynda á náms- og starfsval er þýðingarmikill þáttur í átt að jafnara samfélagi.

Skýrslan varpar ljósi á mikilvægi þess að leita leiða til að vinna gegn hugmyndum um kynhlutverk og kynbundnum staðalímyndum um nám og störf. Slíkar hugmyndir geta komið í veg fyrir jafna möguleika einstaklinga til námsvals, starfsframa, lífsafkomu og áhrifa. Öflugar aðgerðir og úrbætur í skólasamfélaginu með stuðningi stjórnvalda geta unnið gegn félagslegum hindrunum, stuðlað að auknu menntunarstigi í landinu og skapað tækifæri fyrir alla í samfélaginu. 

Laufey kynnir niðurstöður sínar og tillögur á málþingi í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands, fimmtudaginn 9. febrúar kl. 14.30 (og í streymi á Facebook síðu Jafnréttisdaga) og er allt áhugafólk um málefnið velkomið. Skýrsluna er að finna á vefnum jafnretti.hi.is.

Laufey Axelsdóttir, skýrsluhöfundur og nýdoktor í kynjafræði, Arnar Gíslason og Sveinn Guðmundsson, jafnréttisfulltrúar Háskóla Íslands, og Sæunn Gísladóttir, starfsmaður jafnréttisráðs Háskólans á Akureyri.




Skoðun

Sjá meira


×