Í texta á samráðsgátt stjórnvalda, sem birtist í gær um áformað lagafrumvarp um að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða, segir meðal annars:
„Margvíslegur þjóðfélagslegur ávinningur fylgir því að flýta slíkum framkvæmdum, svo sem aukið umferðaröryggi, stytting leiða með þeim jákvæðu umhverfisáhrifum sem því fylgja og betri og öruggari tengingar byggða og atvinnusvæða.“
Vegagerðin lagði samskonar sjónarmið fram í umhverfismati vegna Dynjandisheiðar; að stytting leiðar með þverun Vatnsfjarðar myndi draga úr útblæstri. Sagði Vegagerðin að veglínur þvert yfir fjörðinn kæmu til með að hafa jákvæð áhrif á losun CO2 þar sem veglínurnar styttu núverandi vegalengdir.

Þessu svaraði Skipulagsstofnun:
„Að mati Skipulagsstofnunar ber að horfa til þess að framkvæmdin felur í sér samgöngubætur sem eru líklegar til að fjölga ferðum. Í matsskýrslu eru ekki færð rök fyrir því að minni útblástur vegna styttingar vegalengdar um 3-4 km sé líkleg til að vega upp á móti auknum útblæstri vegna fjölgunar ferða. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdin sem slík sé heilt yfir líkleg til að hafa neikvæð áhrif á útblástur,“ sagði í áliti Skipulagsstofnunar, sem þau Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri og Egill Þórarinsson, sviðsstjóri umhverfismats, rituðu undir.