Skoðun

Að ættleiða sitt eigið barn

Siv Friðleifsdóttir skrifar

Eru íslensk fæðingarvottorð tekin gild á Norðurlöndum? Hið almenna svar er já. Þó hafa íslensk fæðingarvottorð barna samkynhneigðra foreldra ekki verið tekin gild í Svíþjóð í öllum tilvikum.

Fyrir tilstilli öflugrar réttindabaráttu í málefnum samkynhneigðra, þrýstings innanlands og á norrænum vettvangi meðal annars í gegnum Norræna stjórnsýsluhindranaráðið, verður jákvæð breyting gerð á þann 1. ágúst næst komandi þegar ný sænsk lög taka gildi.

Tökum raunverulegt dæmi. Tvær giftar konur eignuðust dóttur á Íslandi. Á fullgildu íslensku fæðingarvottorði, gefnu út af Þjóðskrá, stendur að móðir barnsins sé sú sem gekk með barnið og að hin konan sé foreldri þess. Fjölskyldan flytur til Svíþjóðar í nám og skráir sig inn í sænska kerfið. Þá kemur babb í bátinn.

Sænska kerfið viðurkennir að sú sem gekk með barnið sé móðir þess, en ekki að hin sé foreldri þess. Hún fær þær leiðbeiningar að hún verði að ættleiða eigið barn til að fá forræði yfir því. Íslenska fæðingarvottorðið er þannig ekki tekið gilt.

Fjölskyldunni er brugðið, gerist brautryðjandi og fer með málið fyrir sænska dómstóla. Vinnur á neðri dómstigum en tapar á því hæsta. Sænsk lög hindruðu þannig viðurkenningu hins íslenska vottorðs.

Sænsk stjórnvöld hafa að undanförnu lagt mikla og góða vinnu í að skoða hvernig viðurkenna skuli mál af þessum toga. Sænska þingið hefur nú samþykkt ný og betri lög þannig að frá 1. ágúst munu öll íslensk fæðingarvottorð verða tekin gild. Aðrar fjölskyldur munu því ekki lenda í sama vanda og hér var lýst.

Höfundur er fulltrúi Íslands í Norræna stjórnsýsluhindranaráðinu.




Skoðun

Sjá meira


×