Í fyrstu munu drónar flytja lyf eins og sýklalyf og greiningarsýni milli aðalsjúkrahúss Grænlands í Nuuk, Dronning Ingrid’s Hospital, og byggðanna Kapisillit og Qeqertarsuatsiaat. Fyrrnefnda þorpið er djúpt inni í Nuuk-firði, um 75 kílómetra frá höfuðstaðnum, en hitt er á eyju undan vesturströnd Grænlands, um 150 kílómetra suður af Nuuk.
„Þar sem vegalengdir milli byggða og næsta sjúkrahúss eru langar mun notkun dróna hjálpa til við að tryggja hraðari greiningu og gera það auðveldara og fljótlegra að fá lífsnauðsynleg lyf yfir langar vegalengdir,“ segir í fréttatilkynningu frá Falck.

Fyrirtækið, í samstarfi við dönsk heilbrigðisyfirvöld, þarlend flugmálayfirvöld og fleiri aðila, tók tímamótaskref í notkun heilbrigðisdróna þann 30. maí síðastliðinn þegar reglubundið drónaflug hófst milli sjúkrahússins í Svendborg á Fjóni og eyjunnar Ærø en þar búa um sexþúsund manns. Flugið tekur 35 mínútur en loftlínan er um 50 kílómetrar og flýgur dróninn í 80 metra hæð.
Litið er á þetta sem þriggja ára tilraunaverkefni og styrkir nýsköpunarsjóður Danmerkur það með 260 milljónum íslenskra króna. Til að byrja með flytur dróninn einkum blóðsýni frá heilsugæslunni á Ærø sem fara eiga á rannsóknarstofu í Svendborg eða á háskólasjúkrahúsið í Odense. Með drónafluginu vonast menn til að spara bæði tíma og mikla fjármuni en sýni hafa til þessa verið flutt á milli með bíl og ferju, sem tekur um eina og hálfa klukkustund, auk þess sem tíðni ferjusiglinga er takmörkuð. Stefnt er á að prófa drónaflug á fleiri stöðum innan Danmerkur.

Vel má ímynda sér að drónar gætu með sama hætti gagnast íslenskri heilbrigðisþjónustu, til dæmis ef þeir væru gerðir út frá fjórðungssjúkrahúsum til að sinna fámennum byggðum með takmarkaðar samgöngur. Dróni frá Akureyri gæti skutlað lyfjum út í Hrísey og Grímsey, dróni frá Ísafirði sinnt Djúpinu og Árneshreppi og dróni úr Neskaupstað flogið í Mjóafjörð og Borgarfjörð. Og ekki aðeins í dreifbýli. Spyrja má hvort drónar gætu nýst til að flytja sýni til dæmis milli sjúkrahússins á Akranesi og Landspítalans í Reykjavík.
Sjúkraflutningafyrirtækið Falck hefur raunar enn stærri drauma. Það stefnir að því innan þriggja ára verði unnt að nota dróna til að fljúga með heilbrigðisstarfsmenn í vitjanir til sjúklinga.