Erlent

Sparka Hitler-eftir­hermu úr Val­kosti fyrir Þýska­land

Kjartan Kjartansson skrifar
Alexander Eichwald í pontu á stofnfundi ungliðahreyfingar AfD í Giessen um helgina. Óljóst er hvort hann hafi verið alvara með Hitler-tilburðum sínum eða hvort ræðan hafi verið háðsádeila.
Alexander Eichwald í pontu á stofnfundi ungliðahreyfingar AfD í Giessen um helgina. Óljóst er hvort hann hafi verið alvara með Hitler-tilburðum sínum eða hvort ræðan hafi verið háðsádeila. AfDTV

Næstráðandi jaðarhægriflokksins Valkost fyrir Þýskaland (AfD) segir að félagi sem hélt ræðu í anda Adolfs Hitler á fundi ungliðahreyfingar hans um helgina verði rekinn úr flokknum. Hann segir ræðuna hafa verið lélega háðsádeilu.

Mikla athygli vakti þegar lítt þekktur félagi í AfD að nafni Alexander Eichwald kvaddi sér hljóðs á stofnfundi ungliðahreyfingar flokksins í borginni Giessen um helgina. Hann var klæddur í bláan jakka, með hárið sleikt aftur og virtist líkja eftir talanda og látbragði Hitlers.

„Það er þjóðleg skylda okkar að vernda þýska menningu fyrir erlendum áhrifum“ sagði Eichwald með framburði sem þótti minnar á nasistaleiðtogann alræmda.

Tino Chrupalla, næstráðandi í AfD, segir þýskum fjölmiðlum að Eichwald hafi þegar verið sent brottrekstrarbréf og verði gerður brottrækur úr flokknum.

„Við viljum ekki svona fólk í flokknum okkar,“ sagði Chrupalla.

Hélt Chrupalla því fram að ræða Eichwald hefði verið léleg háðsádeila og að hann hefði aðeins gengið í AfD fyrir tveimur mánuðum.

Sökuðu Eichwald um að vera uppljóstrara leyniþjónustunnar

AfD er yst á hægri jaðri þýskra meginstraumsstjórnmála og næststærsti flokkurinn á þingi. Aðrir flokkar hafa neitað að vinna með honum þar vegna sögulegrar útilokunar öfgahægrimanna.

Tino Chrupalla, varaleiðtogi AfD í Þýskalandi.Vísir/EPA

Þýska leyniþjónustan ætlaði að skilgreina AfD sem öfgasamtök fyrr á þessu ári en því var frestað eftir að flokkurinn leitaði til dómstóla. Undirdeildir flokksins, þar á meðal eldri ungliðahreyfing hans, hlutu slíka skilgreiningu en hún leyfir leyniþjónustunni að fylgjast sérstaklega með öfgahópum.

Einhverjir liðsmanna AfD héldu því fram að Eichwald væri útsendari leyniþjónustunnar og efuðust um að honum hefði verið alvara með ræðu sinni.

„Þessi spurning stafar líklega af því að ég trilla errin. Ég er rússneskur Þjóðverji og mér var kennt að tala svona,“ sagði Eichwald á fundinum, að því er kemur fram í frétt Politico.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×