Erlent

Adolf ekki lengur Hitler

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Adolf sóttist eftir endurkjöri í sveitarstjórnarkosningum í Namibíu. Hér má sjá íbúa landsins bíða eftir því að greiða atkvæði en myndin tengist fréttinni ekki beint.
Adolf sóttist eftir endurkjöri í sveitarstjórnarkosningum í Namibíu. Hér má sjá íbúa landsins bíða eftir því að greiða atkvæði en myndin tengist fréttinni ekki beint. epa

Adolf Hitler Uunona var endurkjörinn sveitarstjórnarfulltrúi í norðurhluta Namibíu. Eftir að hafa hlotið mikla athygli fyrir nafn sitt hefur hann ákveðið að breyta því og fjarlægja Hitler-nafnið.

Stjórnmálamaðurinn var nefndur Adolf Hitler Uunona við fæðingu en að hans sögn valdi faðir hans nafnið. Hann hafi ekki gert sér almennilega grein fyrir merkingu nafnsins.

Adolf hóf stjórnmálaferil sinn árið 2004. Fyrir tveimur dögum var hann endurkjörinn sem sveitarstjórnarfulltrúi í Ompundja-kjördæminu á Oshana-svæðinu í norðurhluta Namibíu. Hann hefur fengið mikla athygli fyrir nafngiftina, sérstaklega út á stjórnmálaferilinn og hefur áður lýst því yfir í viðtali að hann sækjist ekki eftir alheimsyfirráðum.

Þrátt fyrir neikvæð tengsl við nafnið er Adolf afar vel liðinn í kjördæmi sínu. Hann hlaut 1275 atkvæði í nýafstöðnum kosningum en andstæðingur hans einungis 148 samkvæmt Daily Sabah. Íbúar á svæðinu lýsa honum sem viðmótsgóðum og áhrifaríkum stjórnmálamanni.

Nú hefur Adolf ákveðið að breyta nafninu sínu og fjarlægja Hitler-nafnið.

„Ég vil ekki að metnaður minn og persónuleiki tengist einhverjum sem ég fordæmi gjörðir. Með því að fjarlægja nafnið geri ég það opinbert,“ segir Adolf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×