„Það er svo margt spennandi að gerast í þessum málum og það verður áhugavert að geta á einum stað fengið yfirsýn yfir nýsköpun á sviði grænna lausna og auk þess að hitta fólk sem er í framlínunni við að tvinna sjálfbærni inn í kjarnastefnu og þar með daglegt starf,“ segir Vilborg Einarsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri BravoEarth um Loftlagsmótið sem haldið verður á Grand hótel þann 4.maí næstkomandi.
Vilborg tók þátt í mótinu í fyrra og hvetur fyrirtæki og stofnanir til að taka þátt í næstu viku.
Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um Loftlagsmótið 2022. Loftlagsmótið er haldið af Grænvangi, RANNÍS, Festu og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Umhverfisvæn stefnumót
Vilborg er með MSc gráðu í Stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og Verslunarháskólanum í Árósum og B.ed. frá Kennaraskóla Íslands. Vilborg er sérfræðingur í breytingastjórnun og er meðstofnandi og fyrrum forstjóri Mentors.
Vilborg hvetur fyrirtæki og stofnanir til að taka þátt í Loftlagsmótinu.
„Það sem einkennir Loftlagsmótið er frábær skipulagning og skilvirkni. Það er bæði lærdómsríkt og gefandi að hitta þá sem eru að vinna að UFS innan fyrirtækjanna sem og sérfræðinga sem eru að bjóða annarskonar grænar lausnir,“ segir Vilborg en UFS er skammstöfun fyrir umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti.
Rétt eins og í fyrra byggir Loftlagsmótið á korterslöngum stefnumótum þar sem aðilar viðra hugmyndir og lausnir að umhverfisvænni rekstri. Í ár er lögð áhersla á nýsköpun.
Vilborg segir þetta fyrirkomulag skemmtilegt og spennandi.
Það er mjög spennandi að geta bókað örfundi og skiptst á reynslu, þekkingu og hugmyndum. Með því að taka þátt fá vinnustaðir einfaldan aðgang að fjölda aðila sem eru með spennandi lausnir og reynslu sem einfalda þeim að feta veginn í átt að sjálfbærni.
Svona pínu eins og konfektkassi nema þú mátt borða fullt af molum.“

Frá hugmynd að framkvæmd
Á stefnumótum Loftlagsmótsins er markmiðið að fólk hittist og miðli hugmyndum um lausnir, heyri af hugmyndum um lausnir og ræði nýjar leiðir til að stuðla að umhverfisvænni rekstri.
Vilborg telur að þetta árið muni umræðan einkennast af því hvernig vinnustaðir geti komið sjálfbærnistefnunni í framkvæmd.
„Við þurfum núna að einbeita okkur að aðgerðum og til þess þurfum við að mæla, setja okkur stefnu og markmið og koma aðgerðum í framkvæmd.
BravoEarth býður til dæmis upp á veflausn með innbyggðar leiðbeiningar og ferli sem leiðir vinnustaði áfram skref fyrir skref við mótun og innleiðingu sjálfbærnistefnu og undirbúning við að birta UFS sjálfbærniskýrslu.
Í kerfinu er einnig stuðningur við greiningu á loftlagstengdri áhættu og tækifærum.
Það sem Vilborgu finnst standa upp úr eftir mótið í fyrra er fjölbreytnin.
Ég komst í samband við fjölda fyrirtækja sem voru bæði að byrja sína sjálfbærni vegferð og sem voru lengra komin og sum eru viðskiptavinir BravoEarth í dag.
Það sem einnig stendur upp úr er lærdómurinn, það er að fá að skiptast á hugmyndum og aðferðum enda eru loftlagsmálin sameiginlegt verkefni okkar allra.“
Vilborg hvetur sem flesta til að taka þátt í mótinu og heyra um allt það sem nú þegar er hægt að gera.
„Það er óþarfi að finna upp hjólið. Það er svo margt áhugavert sem verið er að gera.“