Fótbolti

Ísak á meðal efnilegustu leikmanna heims að mati FourFourTwo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson hefur leikið með FC Kaupmannahöfn síðan í september 2021.
Ísak Bergmann Jóhannesson hefur leikið með FC Kaupmannahöfn síðan í september 2021. getty/Lars Ronbog

Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmaður FC Kaupmannahafnar og íslenska landsliðsins, er á lista fótboltatímaritsins FourFourTwo yfir efnilegustu leikmenn heims.

Ísak er í 43. sæti á fimmtíu manna lista FourFourTwo. Í umsögn um Skagamanninn er þess getið að hann sé sonur Jóhannesar Karls Guðjónssonar og greinarhöfundur segir að það minni sig óhjákvæmilega á aldur sinn. Ísak er sagður vera hæfileikaríkur miðjumaður sem er frábær með boltann, yfirvegun einkenni leik hans og hann eigi auðvelt með að finna samherja sína.

Í efsta sæti lista FourFourTwo er jafnaldri Ísaks, Jude Bellingham, sem leikur með Borussia Dortmund og enska landsliðinu. Leikmennirnir í 2. og 3. sæti leika báðir með Barcelona og spænska landsliðinu, Pedri og Ansu Fati. Liverpool-maðurinn Harvey Elliott er í 4. sæti listans.

Athygli vekur að fjórtán á listanum eru Englendingar. Einn þeirra, Shola Shoretire, er í sætinu fyrir neðan Ísak á listanum.

Ísak var einnig á lista The Guardian yfir sextíu efnilegustu leikmenn heims fædda 2003 sem var gefinn út síðasta haust.

Ísak gekk í raðir FCK frá Norrköping í Svíþjóð í byrjun september í fyrra. Þrátt fyrir að vera aðeins átján ára hefur Ísak leikið tíu A-landsleiki og skorað eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×