Íslenski boltinn

KR og Stjarnan með stórsigra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pálmi Rafn skoraði eitt fimm marka KR í kvöld.
Pálmi Rafn skoraði eitt fimm marka KR í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

KR og Stjarnan unnu stórsigra í Lengjubikar karla og kvenna í fótbolta í kvöld.

KR heimsótti Aftureldingu í Mosfellsbæ í riðli 3 í A-deild Lengjubikars karla. Heimamenn leika í Lengjudeildinni í sumar á meðan KR-ingar stefna á að vera í baráttunn um Íslandsmeistaratitilinn og það mátti sjá á leik liðanna í kvöld.

KR skoraði þrjú mörk á tæpum tíu mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks og var því 3-0 yfir er flautað var til hálfleiks. Stefán Árni Geirsson kom Vesturbæingum yfir, Stefan Alexander Ljubicic tvöfaldaði forystuna og Pálmi Rafn Pálmason bætti þriðja markinu við.

Sigurður Bjartur Hallsson kom inn af bekknum í hálfleik og skoraði tvívegis í síðari hálfleik, lokatölur 5-0 KR í vil.

KR var án margra sterkra leikmanna í kvöld en Finnur Tómas Pálmason og Hallur Hansson eru ekki komnir með leikheimild. Þá voru Kristinn Jónsson og Kjartan Henry Finnbogason einnig fjarri góðu gamni.

Í riðli 1 í A-deild Lengjudeildar kvenna mættust Stjarnan og Selfoss. Gestirnir voru án sterkra leikmanna á borð við Sif Atladóttur og Barbáru Sól Gísladóttur þar sem þær eru ekki komnar með leikheimild.

Líkt og í Mosfellsbæ voru fimm mörk skoruð en í Garðabænum var það heimaliðið sem skoraði öll mörkin.

Jasmín Erla Ingadóttir skoraði fyrsta mark Stjörnunnar í kvöld.vísir/bára

Jasmín Erla Ingadóttir kom Stjörnunni yfir og Gyða Kristín Gunnarsdóttir tvöfaldaði forystuna fyrir hálfleik. Arna Dís Arnþórsdóttir bætti þriðja markinu við á 56. mínútu og fjórum mínútum síðar hafði Katrín Ásbjörnsdóttir skorað fjórða mark Stjörnunnar.

Alma Mathiesen bætti svo fimmta markinu við áður en leiknum lauk. Öruggur 5-0 sigur Stjörnunnar staðreynd.

Selfoss var án bæði Sif Atladóttur og Barbáru Sól Gísladóttur í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×