Theodór Elmar greinir frá því í viðtali við íþróttadeild að forgangsröðunin hafi ekki alltaf verið rétt þegar hann var ungur atvinnumaður. Hann fór til Celtic aðeins 17 ára gamall og fyrstu árin í atvinnumennskunni var töluvert um djammið.
„Það var mjög mikið partýstand á manni á þessum tíma þegar maður var ungur. Það var bara jafn gaman í Osló og Glasgow fyrir mér. Það er kannski hluti af því að maður meikaði það ekki hjá Celtic, að það var of mikið líf og fjör utan vallar,“ segir Theodór Elmar.
Hann spilaði 41 landsleik fyrir Ísland en þeir dreifast yfir tæpan áratug. Þar reyndist dýrkeypt að hafa sagt sig frá landsliðinu um nokkurra ára skeið.
„Þegar ég var ungur og með allt á hornum mér ákvað ég að hætta í landsliðinu þegar ég var bekkjaður tvítugur. Þá hringdi ég í þjálfarann og sagði honum að þetta væri eitthvað sem ég vildi ekki eyða tímanum mínum í. Fór svo í afmæli hjá bróður mínum á Prikinu. Forgangsröðunin var ekki alltaf eins og hún á að vera,“
„Svo kom ég til baka þegar kom nýr þjálfari, Lars, og var svona fastur inni í þessu eftir það. En maður hefði vissulega hefði verið með 30-40 leikjum meira ef ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun,“ segir Elmar.
Viðtalið má sjá í heild sinni efst. Hér að neðan og á öllum helstu hlaðvarpsveitum má hlusta á viðtalið í Besta sætinu.