Fram kemur í tilkynningu frá Arionbanka að óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir hækki um 0,2 prósentustig og verði 3,74 prósent, og óverðtryggðir fastir þriggja ára íbúðalánavextir hækki um 0,14 prósentustig og verði 4,49 prósent.
Almennir óverðtryggðir kjörvextir hækka um 0,2 prósentustig og verða 4,90 prósent. Kjörvextir bílalána hækka um 0,20 prósentustig og verða 5,30 prósent. Yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga hækka um 0,25 prósentustig.
Breytilegir óverðtryggðir innlánavextir hækka ýmist um allt að 0,25 prósentustig eða haldast óbreyttir en vextir á t.d. veltureikningum haldast óbreyttir. Vextir verðtryggðra íbúðalána og verðtryggðir kjörvextir haldast óbreyttir.
„Vaxtabreytingar útlána taka mið af fjármögnunarkostnaði bankans á hverjum tíma en einnig af öðrum þáttum, m.a. útlánaáhættu. Fjármögnunarkostnaður bankans fylgir að hluta til stýrivöxtum Seðlabankans en einnig hafa aðrar fjármögnunarleiðir umtalsverð áhrif, svo sem innlán viðskiptavina, markaðsfjármögnun, erlend skuldabréfaútgáfa og eiginfjárgerningar,“ segir Arionbanki í tilkynningu.
Stóru viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arionbanki, hækkuðu síðast vexti íbúðalána þann 1. júní, sömuleiðis í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans.