Skoðun

Að þykja vænt um komandi kynslóðir

Kristrún Frostadóttir skrifar

Stefnt er að 100 milljarða króna niðurskurði 2023-25 til að draga úr skuldsetningu vegna heimsfaraldurs í núverandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þau hafa áhyggjur af vaxtakostnaðinum sem hlýst af því að stöðva skuldasöfnunina seinna, kostnaðinum af fjármagni sem styður við endurreisn eftir náttúruhamfarir.

Ekki má íþyngja komandi kynslóðum með of þungum skuldabagga segja þau. Við þurfum að vera ábyrg, hér reynir á ráðdeild til skamms tíma, erfiðar ákvarðanir.

Þetta er óútfært – en þau segjast bara ætla að finna 100 milljarða króna í rekstri hins opinbera, 34 milljarða á hverju ári frá árinu 2023-2025 – til að loka fjárlagagatinu.

Setjum upphæðina í samhengi. Rekstur Sjúkrahússins á Akureyri kostar 8 milljarða á ári, Háskóli Íslands kostar 17 milljarða, embætti landlæknis 1,5, Þjóðleikhúsið 1,3 og dómstólakerfið í heild 3,5.

Jafnvel þótt allar þessar stofnanir og öll þessi starfsemi yrði lögð niður á einu bretti, þá myndi það ekki duga til að mæta niðurskurðarkröfum ríkisstjórnarinnar.

Látum liggja á milli hluta að fjárlagagat ríkissjóðs sveiflast með hagkerfinu. Að ef hagkerfið er heilbrigt og umsvif mikil, þá minnkar gatið sjálfkrafa með tíð og tíma.

Að ef bæði atvinnulífið og hið opinbera halda að sér höndum samtímis, þá snarminnka umsvif og botninn dettur úr hagkerfinu. Skatttekjur minnka meira og atvinnuleysisútgjöld aukast.

Látum líka liggja á milli hluta að samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar ætla þau að herða ólina enn frekar ef efnahagsástandið reynist verra en grunnspá þeirra gerir ráð fyrir.

Sem sagt ef efnahagsástandið versnar, samfélagið stendur veikari fótum, þá ætla þau að skera niður enn meira.

Forneskjulegar hugmyndir? Já. Enda aðferðir sem við höfum séð aftur og aftur að virka ekki.

Umræða um skuldabyrði framtíðarkynslóða á svo sannarlega rétt á sér. Stóra myndin hefur hins vegar tapast. Velferðartap framtíðarkynslóða af því að fara hægar í þá vegferð að vinna okkur út úr COVID skuldunum en nú er stefnt að er mjög lítið miðað við velferðartapið sem niðurskurður grunnþjónustu á viðkvæmum tímum getur haft.

En látum það liggja á milli hluta.

Því þversögnin í stefnu stjórnvalda er enn athyglisverðari:

Ofuráhersla er á að ná markmiði um ákveðið skuldahlutfall árið 2025 með aðgerðum sem eru til þess fallnar að grafa undan tekjuvexti hagkerfisins - og þar með magna skuldavanda ríkissjóðs til lengri tíma. Fyrir framtíðarkynslóðir. En fátt er um djarfar ákvarðanir í þeim málaflokki sem ungt fólk hefur mestar áhyggjur af. Þar sem stærstu skuldirnir eru að safnast upp: loftslagsmálum.

Ef við höfum áhyggjur af framtíðarkynslóðum þá er margfalt ódýrara fyrir okkur að grípa til alvöru aðgerða í loftslagsmálum núna, byggja upp til framtíðar, en að skera niður almannaþjónustu fyrir skammtíma markmið. Þetta skilur Samfylkingin.

Höfundur er hagfræðingur og leiðir lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður í komandi alþingiskosningum.




Skoðun

Sjá meira


×