Fótbolti

Hádramatískur sigur í fyrsta leik Freys

Valur Páll Eiríksson skrifar
Freyr Alexandersson náði naumlega í þrjú stig í fyrsta leik.
Freyr Alexandersson náði naumlega í þrjú stig í fyrsta leik. mynd/Lyngby Boldklub

Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Lyngby unnu nauman 2-1 sigur á Nyköbing í fyrstu umferð dönsku B-deildarinnar í fótbolta í dag. Sigurmarkið kom á ögurstundu.

Nyköbing eru nýliðar í deildinni eftir að hafa komist upp úr C-deildinni í vor. Þjálfari liðsins er Claus Jensen, fyrrum landsliðsmaður Dana og leikmaður Charlton Athletic og Fulham í ensku úrvalsdeildinni, en hann er einnig á meðal helstu bakhjarla félagsins.

Lyngby, sem einnig eru nýliðar eftir fall úr úrvalsdeildinni, mætti í heimsókn til Nyköbing í dag og leiddu 1-0 í hléi eftir mark framherjans Frederiks Gytkjær um miðjan fyrri hálfleikinn. Heimamenn jöfnuðu hins vegar á fyrstu mínútu síðari hálfleiks með marki Mikkels Andersen.

1-1 stóð allt fram í uppbótartíma en á 96. mínútu leiksins skoraði Rasmus Pedersen, sem hafði komið inn á sem varamaður á 81. mínútu, sigurmark Lyngby.

Freyr byrjar því á sigri í nýju starfi, en tæpara mátti það ekki standa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×