Fótbolti

Orra ætlað að skora áfram fyrir danska stórveldið næstu þrjú árin

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Steinn Óskarsson handsalar nýja samninginn. Hann hefur slegið í gegn með unglingaliðum FCK síðustu mánuði.
Orri Steinn Óskarsson handsalar nýja samninginn. Hann hefur slegið í gegn með unglingaliðum FCK síðustu mánuði. FCK/Torkil Fosdal

„Þetta er draumur. Ég hef spilað fótbolta síðan ég var sex ára gamall og það að vera í svona stóru félagi og fá samning hér er mjög stórt,“ segir Orri Steinn Óskarsson, knattspyrnumaðurinn ungi, sem skrifað hefur undir nýjan samning við danska stórveldið FC Kaupmannahöfn.

Nýi samningurinn gildir til næstu þriggja ára, eða sumarsins 2024.

Orri kom til FCK frá Gróttu í fyrra og hefur slegið í gegn með U17- og U19-liði félagsins. Á nýafstaðinni leiktíð varð hann markhæstur í dönsku U17-deildinni með 29 mörk í 17 leikjum og hann skoraði auk þess 10 mörk í 12 leikjum í U19-deildinni. FCK varð Danmerkurmeistari U17-liða.

„Ég elska að skora mörk en þetta snýst um liðið og að vinna. Það er í eðli FCK að vinna og mörkin fylgja því að vinna. Vonandi koma mörg mörk til viðbótar og fleiri gullverðlaun í framtíðinni. Ég hef enn margt til að bæta og FCK getur hjálpað mér til þess. Það er ekki erfitt að bæta sig hérna,“ sagði Orri við heimasíðu félagsins, eftir að hafa skrifað undir nýja samninginn.

Orri, sem verður 17 ára í ágúst, á að baki 15 leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af tvo fyrir U19-liðið, og hefur skorað í þeim 10 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×