Á vefsíðunni easymeeting.net er að finna ýmsan fróðleik sem getur nýst vel þegar að fólk vill koma vel fyrir. Hér eru fimm atriði sem gott er að hafa í huga.
1. Ekki krossleggja hendur né fætur
Leggðu áherslu á að vera afslappaður/afslöppuð, rétta úr baki og krossleggja hvorki hendur né fætur. Þannig ertu að senda þau skilaboð að þú sért opin/n og jákvæður fyrir þeim samskiptum sem framundan eru.
Mögulega vilja konur sem klæðast pilsi eða kjól fyrir ofan eða um hné, þó krossleggja fætur ef fundaraðstaðan er þannig að þær sitja á stól án þess að það sé borð fyrir framan.
Ef þú klæðist jakka, er mælt með því að þú hneppir honum frá þannig að hann sé opinn á meðan á fundi stendur.
2. Hallaðu þér lítillega í átt að viðmælanda
Þegar þú vilt að viðmælandi eða viðmælendur finni að þú hafir áhuga á þeim og umræðunni sem er í gangi, er ágætt að halla sér eilítið í átt að fólki.
Það sama gildir á fjarfundum. Líkamsbeiting þar sem þú hallar þér eilítið að myndavélinni þýðir að þú sért að sýna umræðum og viðmælendum áhuga.
Passaðu þig þó að vera ekki of nálægt myndavélinni því það er ekki rétt ásýnd að þú sért með andlitið þitt í of mikilli nærmynd.
3. Speglaðu líkamstjáningu fundargesta
Með því að spegla líkamstjáningu og svipbrigði fólksins sem þú ert að tala við á fundum, myndar þú sterkari tengsl. Þetta þýðir að ef viðmælandi brosir, brosir þú líka og kinkar kannski kolli. Og svo framvegis.
Auðvitað er ekki verið að tala um að þú hermir eftir öllu sem aðrir gera á fundi, heldur frekar verið að benda á að með því að vera vakandi yfir líkamstjáningu annarra, getur þú myndað sterkari tengsl með því að spegla þá hegðun/tjáningu að hluta.
4. Augnsamband og traust
Augnsamband er lykilatriði til að mynda traust á milli aðila í samskiptum. Með því að mynda augnsamband ertu að segja að athyglin þín sé á umræðum viðmælanda, að þú hafir áhuga og treystir því sem viðkomandi er að segja.
Í Covid hefur augnsambandið aðeins farið forgörðum á fjarfundum. Þar gleyma sér margir og enda með að horfa mest á sjálfan sig á skjánum. Leið til að breyta þessu er að horfa beint í myndavélina á meðan samskiptin fara fram.
5. Handabandið: Ef það heldur áfram?
Að því gefnu að handabandið lifi af heimsfaraldurinn, er það gömul saga og ný að ágætlega þétt handaband vekur traust. Handabandið má ekki vera of laust, en heldur ekki of fast.
Fyrir þann hóp fólks sem sér fram á að fundir og samskipti munu að mestu halda áfram í fjarfundarformi í kjölfar Covid, er ágætt að fara yfir það í huganum hvernig þú ert vanur/vön að kynna þig í upphafi fundar. Í raun má segja að þær sekúndur sem þú notar í að kynna þig, sé tækifærið þitt til að vekja upp það traust sem þú að öllu jafna hefur lagt áherslu á að fólk upplifi þegar þú heilsar með handabandi.