Fótbolti

Gæti verið „fjölskyldumynd“ ársins í íslenska fótboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson fagnar markinu sínu en á bak við er móðir hans að hringja heim til Íslands.
Orri Steinn Óskarsson fagnar markinu sínu en á bak við er móðir hans að hringja heim til Íslands. Instagram/@fc_kobenhavn

Gróttustrákurinn Orri Steinn Óskarsson varð í gær Danmerkurmeistari með sautján ára liði FC Kaupmannahafnar. Reyndar getur liðið stærðfræðilega misst titilinn í lokaumferðinni en þá þarf næsta lið að vinna upp 32 mörk í síðasta leiknum.

Orri Steinn hefur raðað inn mörkum á leiktíðinni og skoraði annað mark FCK í 2-0 sigri á Nordsjælland í gærkvöldi. Markið hans kom fimmtán mínútum fyrir leikslok og gulltryggði sigurinn.

FCK strákarnir héldu þrátt fyrir sigurinn að þeir gætu ekki tryggt sér titilinn fyrr en í lokaumferðinni þegar þeir mæta Bröndby. Annað kom á daginn því FC Midtjylland tapaði á móti Silkeborg á sama tíma.

FCK er því með þriggja stiga forskot og 32 marka forskot fyrir lokaumferðina og því er aðeins stærðfræðin sem kemur í veg fyrir að liðið vinni titilinn.

Orri hefur alls skorað 26 mörk í 16 leikjum í deildinni eða níu mörkum meira en næsti maður í liðinu.

Orri Steinn verður sautján ára gamall í haust en hann er á sínu öðru ári með danska liðinu eftir að hafa farið út í kjölfarið á því að hjálpa Gróttu að vinna sér sæti í Pepsi Max deildinni í fyrsta skiptið.

Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður Orra, birti mjög skemmtilega mynd á samfélagsmiðlum eftir leikinn í gær og þar gæti mögulega verið á ferðinni „fjölskyldumynd“ ársins í íslenska fótboltanum.

Orri Steinn sést þar fagna markinu sínu í leiknum en á bak við hann sést líka móðir hans, Laufey Kristjánsdóttir , vera að tala við föður hans Óskar Hrafn Þorvaldsson heima á Íslandi og segja honum væntanlega frá því að strákurinn hefði skorað mark. Óskar Hrafn stýrði Breiðabliki í Mjólkurbikarnum í gær en það gekk ekki eins vel hjá honum og stráknum.

Svo segir alla vega Magnús Agnar í færslu sinni sem sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×