Fótbolti

Freyr úr stúdíóinu í danskan þjálfarastól

Sindri Sverrisson skrifar
Freyr Alexandersson glaðbeittur með treyju Lyngby.
Freyr Alexandersson glaðbeittur með treyju Lyngby. mynd/Lyngby Boldklub

Danska knattspyrnufélagið Lyngby staðfesti í dag ráðningu Freys Alexanderssonar. Freyr, sem verið hefur undanfarið sérfræðingur í sjónvarpsþáttunum EM í dag, verður aðalþjálfari Lyngby.

Freyr er 38 ára gamall. Hann var aðstoðarþjálfari Al Arabi í Katar í vetur en starfaði áður fyrir KSÍ í sjö ár, fyrst sem aðalþjálfari kvennalandsliðsins og svo sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins.

Þetta er fyrsta starf Freys sem aðalþjálfari atvinnumannaliðs en hann hóf þjálfaraferilinn sem þjálfari kvennaliðs Vals, varð svo aðstoðarþjálfari karlaliðs Vals og stýrði svo karlaliði Leiknis.

Lyngby féll úr efstu deild í vor en ætlar sér beint upp aftur, segir Andreas Byder, framkvæmdastjóri Lyngby.

„Það hefur skipt okkur mestu máli að finna þjálfara sem að passar inn í félagið okkar sem manneskja, hefur trú á okkar áætlun, þróun ungra leikmanna hjá okkur, og markmiðinu um að komast aftur upp í efstu deild. Hvað faglega þætti, persónulega þætti og metnað lítum við svo á að Freyr smellpassi við Lyngby og þess vegna gleður það okkur að Freyr hafi sagt já við því að verða aðalþjálfari,“ sagði Byder.

Samningur Freys gildir til næstu tveggja ára, eða til sumarsins 2023. Hann tekur til starfa strax á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×