Enski boltinn

Hefði hlegið fyrir tveimur mánuðum ef þú hefði sagt mér að Chelsea væri í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ben Chilwell og Antonio Rudiger fagna sigrinum á Real Madrid í gær.
Ben Chilwell og Antonio Rudiger fagna sigrinum á Real Madrid í gær. AP/Alastair Grant

Það hefur mikið breyst á Brúnni síðan að Frank Lampard var rekinn í lok janúar. Enn ein sönnun þess var í gærkvöldi þegar Chelsea komst með sannfærandi hætti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Thomas Tuchel settist í knattspyrnustjórastólinn hjá Chelsea og liðið hefur ekki litið til baka eftir það.

Mótherjarnir finna fáar leiðir framhjá sterkri vörn Chelsea liðsins og í gær gat liðið skorað miklu fleiri en tvö mörk á Real Madrid en spænska stórliðið átti aldrei möguleika í þessum leik.

Pat Nevin er fyrrum leikmaður Chelsea og hann hrósaði liðinu mikið í spjalli á BBC Radio 5 Live.

„Þetta var rosalega skemmtilegur leikur. Ef við horfum á þessa tvo leiki þá hefði Chelsea liðið auðveldlega skorað sjö eða átta mörk á Real Madrid,“ sagði Pat Nevin.

„Þetta var einstaklega sannfærandi hjá Chelsea og ég er eiginlega bara í áfalli að sjá hversu hratt liðið hefur þroskast síðan Thomas Tuchel tók við,“ sagði Nevin.

„Ég hefði hlegið fyrir tveimur mánuðum ef þú hefði sagt mér að Chelsea væri í úrslitaleik Meistaradeildarinnar,“ sagði Pat Nevin.

Chelsea vann báða leikina á móti Atlético Madrid í sextán liða úrslitunum, lifði á 2-0 útisigri í fyrri leiknum á móti Porto í átta liða úrslitunum og sló nú Real Madrid út 3-1 samanlagt.

Chelsea mætir Manchester City í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 29. maí næstkomandi. Chelsea hefur þegar tekið einn titil af City mönnum því Chelsea vann 1-0 sigur á Manchester City í undanúrslitaleik enska bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×