Körfubolti

Spennutryllir í San Antonio

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr spennutrylli næturinnar.
Úr spennutrylli næturinnar. Ronald Cortes/Getty Images)

Það voru miklir spennuleikir í NBA körfuboltanum í nótt. Einn leikurinn fór í framlengingu og annar var tvíframlengdur en alls voru sjö leikir á dagskránni í nótt.

Atlanta vann mikilvægan sigur á San Antonio, 134-129, eftir tvíframlengdan leik en þessi lið eru bæði að berjast um sæti í úrslitakeppninni.

Staðan var jöfn 110-110 eftir venjulegan leiktíma og bæði lið skoruðu einungis níu stig í framlengingunni og því var staðan áfram jöfn, 119-119. Atlanta var sterkari aðilinn að endingu og vann 134-129.

Clint Capela fór fyrir liði Atlanta. Hann skoraði 28 stig, tók sautján fráköst og varði fimm skot. Í liði Spurs var DeMar DeRozan lang stigahæstur með 36 stig, fimm fráköst og níu stoðsendingar.

Atlanta er nú í sjöunda sæti austurdeildarinnar en San Antonio er í áttunda sæti vesturdeildarinnar. Það munar þó ansi litlu á sætunum þar í kring svo bæði lið þurfa að næla sér í sigra í næstu leikjum til að halda sætum sínum.

Hinn framlengdi leikur næturinnar var í New Orleans þar sem Orlando vann fimm stiga sigur á heimamönnum, 115-110, eftir að leikar voru jafnir 101-101 eftir venjulegan leiktíma.

Wendell Carter Jr. gerði 21 stig fyrir Orlando en einnig tók hann tólf fráköst. Nickeil Alexander-Walker gerði 31 stig og tók átta fráköst fyrir New Orleans. New Orleans er langt fyrir utan úrslitakeppni eins og sakir standa og sömu sögu má segja af Orlando.

Öll úrslit næturinnar:

Philadelphia - Cleveland 114-94

Washington - Detroit 91-120

Charlotte - Brooklyn 89-111

Orlando - New Orleans 115-110 (eftir framlengingu)

Golden State - Miami 109-116

Atlanta - San Antonio 134-129 (eftir tvöfalda framlengingu)

Denver - LA Clippers 101-94


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×