Fótbolti

Ein­vígið fer fram á Spáni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Chelsea munu ferðast tvívegis til Spánar á sex dögum til að spila gegn Porto í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Leikmenn Chelsea munu ferðast tvívegis til Spánar á sex dögum til að spila gegn Porto í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. EPA-EFE/NEIL HALL

Í dag var staðfest að báðir leikir Chelsea og Porto í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu munu fara fram á Spáni.

Kórónuveirufaraldurinn hefur áfram að hafa gífurleg áhrif á knattspyrnuleiki um allan heim. Í dag staðfesti knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, að báðir leikir Chelsea og Porto í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar yrðu leiknir á Ramón Sánchez Pizjuán-vellinum í Sevilla á Spáni.

Er það heimavöllur spænska úrvalsdeildarfélagsins Sevilla en félagið datt út gegn Borussia Dortmund í 16-liða úrslitum keppninnar og völlurinn því laus báða dagana sem Chelsea og Porto mætast.

Fyrri leikur liðanna fer fram miðvikudaginn 7. apríl og er titlaður sem heimaleikur Porto. Sá síðari fer fram sex dögum síðar eða á þriðjudeginum 13. apríl og er titlaður sem heimaleikur Chelsea.

Þó báðir leikirnir fari fram á hlutlausum velli munu útivallarmörk gilda ef til þeirra kemur. UEFA hefur ekki gefið annað í skyn og þá hafa önnur einvígi í bæði Meistaradeild og Evrópudeild verið leikin á hlutlausum völlum.

Sigurvegarinn úr rimmu Chelsea og Porto mun mæta annað hvort Real Madrid eða Liverpool í undanúrslitum keppninnar.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×