Fótbolti

Byrjunarlið U-21 árs liðsins gegn Rússum: Kolbeinn bakvörður og Ísak á kantinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson er í byrjunarliði U-21 árs landsliðsins gegn Rússum.
Ísak Bergmann Jóhannesson er í byrjunarliði U-21 árs landsliðsins gegn Rússum. vísir/vilhelm

Davíð Snorri Jónasson hefur tilkynnt byrjunarlið íslenska U-21 árs landsliðsins fyrir leikinn gegn Rússlandi í C-riðli Evrópumótsins í dag.

Það sem vekur kannski helst athygli í byrjunarliði Íslands er að miðjumaðurinn Kolbeinn Þórðarson leikur í stöðu hægri bakvarðar. Alfons Sampsted leysti hana í undankeppni EM en hann er í A-landsliðshópnum og verður ekki með á EM.

Hinn eftirsótti Ísak Bergmann Jóhannesson er í byrjunarliðinu og leikur á hægri kantinum. Fyrirliðinn Jón Dagur Þorsteinsson er á vinstri kantinum og Sveinn Aron Guðjohnsen í fremstu víglínu.

Hvorki Andri Fannar Baldursson né Valgeir Lunddal Friðriksson, sem hafa glímt við meiðsli, eru í byrjunarliðinu sem má sjá hér fyrir neðan.

Kolbeinn Finnsson, sem var í stóru hlutverki í undankeppninni, byrjar á bekknum sem og Mikael Neville Anderson sem hefur bæði spilað með A- og U-21 árs landsliðunum undanfarin misseri.

Skagamaðurinn Stefán Teitur Þórðarson er á miðjunni ásamt Alex Þór Haukssyni og Willum Þór Willumssyni. 

Ari Leifsson og Róbert Orri Þorkelsson standa vaktina í miðri vörninni, Hörður Ingi Gunnarsson er vinstri bakvörður og Patrik Sigurður Gunnarsson í markinu.

Leikur Íslands og Rússlands hefst klukkan 17:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×