Fótbolti

500. landsleikurinn framundan: Aron Einar tvöfalt oftar fyrirliði en næsti maður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson hefur verið í leiðtogahlutverki hjá landsliðinu í næstum því heilan áratug. Hér er hann fyrir framan hópinn á EM í Frakklandi 2016.
Aron Einar Gunnarsson hefur verið í leiðtogahlutverki hjá landsliðinu í næstum því heilan áratug. Hér er hann fyrir framan hópinn á EM í Frakklandi 2016. EPA/GEORGI LICOVSKI

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu spilar leik númer 500 í Þýskalandi í kvöld og Vísir heldur áfram að skoða nokkur met landsliðsins í þessu fyrstu 499 leikjum. Einn maður hefur verið langoftast fyrirliði íslenska liðsins.

Aron Einar Gunnarsson hefur verið fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í næstum því áratug og er fyrir löngu búinn að eignast metið yfir flesta leiki sem fyrirliði liðsins.

Aron Einar Gunnarsson mun leiða íslenska landsliðið inn á völlinn í 63. sinn á MSV-Arena í Duisburg í kvöld.

Aron Einar var fyrst fyrirliði íslenska landsliðsins í leik á móti Frökkum 27. maí 2012 en hann var þá aðeins nýorðinn 23 ára og bara að leika sinn 27. landsleik.

Aron var hins vegar fæddur fyrirliði og hann hefur verið aðalfyrirliði íslenska landsliðsins síðan.

Nú er svo komið að Aron Einar hefur verið fyrirliði í 62 af 91 landsleik sínum fyrir Íslands eða í 68 prósent leikjanna. Í þremur öðrum leikjum hefur hann síðan tekið við fyrirliðabandið þegar hann kom inn á sem varamaður. Þetta hlutfall á aðeins eftir að hækka því það er ekki að sjá það fyrir að fyrirliðabandið verið tekið aftur af Aroni Einari.

Aron Einar bætti metið yfir flesta leiki sem fyrirliði þegar hann leiddi liðið inn á völlinn í 32. sinn á móti Noregi í Osló 1. júní 2016. Eiður Smári Guðjohnsen hafði jafnaði met fyrr á því ári en Atli Eðvaldsson átti metið í langan tíma og tók það á sínum tíma af bróður sínum Jóhannesi Eðvaldssyni.

Aron Einar á þó enn nokkur ár í því að ná Eiði Smára í árafjölda sem fyrirliði. Eiður Smári bar nefnilega fyrirliðaband landsliðsins með næstum því þrettán ára millibili. Eiður var fyrst fyrirliði 2003 og í síðasta skiptið árið 2016.

Leikmenn sem hafa oftast verið fyrirliðar Íslands frá upphafi leiks:

  • Aron Einar Gunnarsson 62 leikir
  • Atli Eðvaldsson 31 leikur
  • Eiður Smári Guðjohnsen 31 leikur
  • Guðni Bergsson 30 leikir
  • Jóhannes Eðvaldsson 27 leikir
  • Hermann Hreiðarsson 24 leikir
  • Ríkharður Jónsson 24 leikir
  • Marteinn Geirsson 22 leikir
  • Eyjólfur Sverrisson 19 leikir
  • Sigurður Jónsson 18 leikir
  • Gylfi Þór Sigurðsson 12 leikir

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×