Fótbolti

Íslensku strákarnir taka þátt í tilraun á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Mikil umræða hefur verið um höfuðmeiðsli í fótbolta undanfarin ár enda geta þau haft grafalvarlegar afleiðingar.
Mikil umræða hefur verið um höfuðmeiðsli í fótbolta undanfarin ár enda geta þau haft grafalvarlegar afleiðingar. GettyDavid Price

UEFA mun leyfa aukaskiptingu vegna höfuðmeiðsla í öllum leikjum í lokakeppni Evrópumóts U21-landsliða í fótbolta sem hefst í næstu viku.

Ísland er eitt af sextán löndum sem eiga fulltrúa á mótinu. Liðið leikur í riðli með Rússlandi, Danmörku og Frakklandi, og fara leikirnir fram í Györ í Ungverjalandi.

Davíð Snorri Jónasson mun tilkynna á fimmtudaginn hverjir verða í EM-hópi íslenskal liðsins, degi eftir að Arnar Þór Viðarsson tilkynnir hverja hann velur í sinn fyrsta A-landsliðshóp vegna undankeppni HM.

Á EM halda áfram tilraunir með aukaskiptingu vegna höfuðmeiðsla. IFAB, alþjóðanefnd knattspyrnusamband, hefur að áeggjan lækna sett stefnuna á að leyfa aukaskiptingu vegna höfuðmeiðsla í öllum fótboltaleikjum í framtíðinni.

Samkvæmt reglunni, sem verður sem sé í gildi á EM, skiptir ekki máli hvort lið hafa gert 0, 1, 2 eða 3 skiptingar – þau munu alltaf hafa rétt á einni aukaskiptingu ef til þarf vegna höfuðmeiðsla. Leikmaður sem skipt hefur verið út af fyrr í leiknum má þó ekki koma inn á í stað þess sem meiðist á höfði.

Riðlakeppni EM fer fram dagana 24.-31. mars. Tvö efstu lið hvers riðils komast í átta liða úrslit en úrslitakeppnin hefst ekki fyrr en 31. maí og stendur yfir til 6. júní. Mótið er leikið í tveimur hlutum vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×