Fótbolti

Ronaldo hefur aldrei skorað í leik á móti Pepe

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fylgist hér með því þegar Pepe lyftir Meistaradeildarbikarnum þegar þeir voru saman hjá Real Madrid.
Cristiano Ronaldo fylgist hér með því þegar Pepe lyftir Meistaradeildarbikarnum þegar þeir voru saman hjá Real Madrid. EPA/PETER POWELL

Cristiano Ronaldo þakkar örugglega fyrir það að Pepe hefur oftast verið með honum í liði inn á fótboltavellinum.

Pepe og félagar í Porto slógu í gær ítalska stórliðið Juventus út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Porto vann fyrri leikinn 2-1 og fór síðan áfram á mörkum á útivelli eftir 3-2 tap í gær.

Juventus fékk Cristiano Ronaldo til sín til að geta loksins farið alla leið í Meistaradeildinni en hefur nú dottið út úr sextán liða úrslitunum tvö ár í röð.

Ronaldo náði ekki að skora í hvorugum leiknum á móti Porto og var allt annað en sannfærandi. Landi hans Pepe átti aftur á móti stórleik í miðri vörn portúgalska liðsins. Pepe er 38 ára gamall eða tveimur árum eldri en Ronaldo.

Þegar menn fóru að skoða betur innbyrðis leiki Cristiano Ronaldo og Pepe kom það í ljós að Ronaldo hefur aldrei skorað í leik á móti Pepe.

Nú hafa þeir verið inn á vellinum sem andstæðingar í 299 mínútur án þess að Ronaldo hafi fundið leiðina í markið.

Pepe hefur þó oft séð Ronaldo skora enda hafa þeir verið liðsfélagar hjá bæði Real Madrid og portúgalska landsliðinu. Á þeim tíma hafa þeir unnið fjölda titla saman, þar á meðal Meistaradeildina þrisvar sinnum og bæði Evrópumótið og Þjóðadeildina með landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×