Körfubolti

LeBron James og félagar unnu OKC aftur í framlengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Wesley Matthews fagna körfu í nótt.
LeBron James og Wesley Matthews fagna körfu í nótt. AP/Ashley Landis

Los Angeles Lakers hélt sigurgöngu sinni áfram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og það gerðu líka Phoenix Suns og Dallas Mavericks. Brooklyn Nets endaði líka taphrinu sína.

Varnarleikur LeBron James sá til þess að lokasókn Oklahoma City Thunder rann út í sandinn þegar Los Angeles Lakers vann eins stigs sigur í framlengdum leik liðanna, 114-113. Þetta var sjötti sigur Lakers-liðsins í röð.

Sóknarleikur LeBron James hafði komið leiknum í framlengingu því þriggja stiga karfa hans jafnaði metin. Þetta var annar framlengdi leikur þessar sömu liða á þremur dögum því Lakers vann 119-112 í öðrum framlengdum leik aðfaranótt þriðjudagsins.

LeBron James endaði leikinn með 25 stig, 7 stoðsendingar og 6 fráköst en Montrezl Harrell kom með 20 stig inn af bekknum. Al Horford var stigahæstur hjá Thunder með 25 stig og Kenrich Williams skoraði 24 stig.

Chris Paul og félagar í Phoenix Suns halda áfram að gera frábæra hluti en þeir unnu 125-124 sigur á Milwaukee Bucks þar sem 47 stig frá Giannis Antetokounmpo dugðu ekki til. Þetta var fjórði sigur Suns í röð og sá sjöundi í síðustu átta leikjum. Bucks var aftur á mótið búið að vinna fimm leiki í röð fyrir leikinn.

Suns liðið var reyndar 124-116 yfir þegar tvær og hálf mínúta var eftir en Bucks skoraði þá átta stig í röð og jafnaði leikinn. Sigurstigið gerði Devin Booker af vítalínunni.

Devin Booker skoraði 30 stig fyrir Phoenix Suns og Chris Paul bætti við 28 stigum og 7 stoðsendingum. Antetokounmpo var með 11 fráköst og 5 stoðsendingar auk 47 stig og Khris Middleton skoraði 18 stig og gaf 11 stoðsendingar.

Luka Doncic var með þrennu hjá Dallas Mavericks í 118-117 sigri á Atlanta Hawks. Slóveninn snjalli var með 28 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar en þetta var sjöunda þrennan hans á tímabilinu sem er það mesta hjá leikmanni í deildinni.

Trae Young var með 25 stig og 15 stoðsendingar fyrir Hawks liðið en John Collins var stigahæstur með 33 stig. Atlanta Hawks menn voru mjög ósáttir í blálokin þegar Trae Young endaði í gólfinu og missti af tækifærinu til að taka lokaskotið.

Varamennirnir komu sterkir inn hjá Dallas í lokin. Jalen Brunson skoraði 11 af 21 stigi sínu í fjórða leikhlutanum og Tim Hardaway Jr. var með 13 af 16 stigum sínum í lokaleikhlutanum sem Dallas liðið vann 37-27 eftir að hafa verið um tíma þrettán stigum undir í þriðja leikhluta.

Dallas liðið vann þarna sinn þriðja sigur í röð og fjórða sigurinn í síðustu fimm leikjum eftir að hafa komið út úr sex leikja taphrinu.

Kyrie Irving skoraði 35 stig þegar Brooklyn Nets endaði þriggja leikja taphrinu með 104-94 sigur á Indiana Pacers. Nets liðið mætti einbeitt til leiks og var komið 32 sigum yfir í hálfleik. James Harden var með 19 stig og 11 fráköst en liðið spilaði enn án ný án Kevin Durant sem er áfram í sóttkví.

Kawhi Leonard skoraði 36 stig þegar LA Clippers vann 119-112 útisigur á Minnesota Timberwolves en þetta er það mesta sem hann hefur skorað á tímabilinu. Lou Williams kom með 27 stig inn af bekknum. Karl-Anthony Towns snéri aftur í lið Timberwolves eftir þrettán leikja fjarveru og var með 18 stig og 10 fráköst.

Zach LaVine skoraði 46 stig og alls níu þriggja stiga körfur þegar Chicago Bulls vann 129-116 sigur á New Orleans Pelicans. Bulls liðið setti nýtt félagsmet með því að skora 25 þriggja stiga körfur í leiknum en Coby White var með 30 stig og átta þrista. Zion Williamson var með 29 stig hjá Pelíkönunum.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

  • Los Angeles Lakers - Oklahoma City Thunder 114-113
  • Phoenix Suns - Milwaukee Bucks 125-124
  • Brooklyn Nets - Indiana Pacers 104-94
  • Dallas Mavericks - Atlanta Hawks 118-117
  • Chicago Bulls - New Orleans Pelicans 129-116
  • Minnesota Timberwolves- LA Clippers 112-119
  • Washington Wizards - Toronto Raptors 115-137
  • Memphis Grizzlies - Charlotte Hornets 130-114
  • Denver Nuggets - Cleveland Cavaliers 133-95

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×