Körfubolti

NBA dagsins: Bestu tilþrifin skiluðu sigri og Finninn á flugi

Sindri Sverrisson skrifar
Devin Booker, Deandre Ayton og Chris Paul fagna eftir sigurkörfu Bookers gegn Dallas Mavericks.
Devin Booker, Deandre Ayton og Chris Paul fagna eftir sigurkörfu Bookers gegn Dallas Mavericks. Getty/Ronald Martinez

Þriggja stiga sigurkarfa Devins Booker er sú besta í topp 10 tilþrifunum í NBA dagsins hér á Vísi. Booker tryggði með henni Phoenix Suns 109-108 sigur gegn Luka Doncic og félögum í Dallas Mavericks.

Leikmenn Dallas áttu enn eina villu til að gefa en sváfu á verðinum og Booker náði að skora þrist þegar aðeins ein og hálf sekúnda var eftir. Phoenix hafði verið ellefu stigum undir tæpum fimm mínútum áður.

Doncic reyndi að bjarga Dallas en lokaskot hans geigaði og þar með hefur Dallas tapað níu af síðustu ellefu leikjum sínum. 

Það borgaði sig hjá Monty Williams, þjálfara Suns, að láta Booker spila mikið þrátt fyrir að hafa verið frá keppni síðustu tíu daga vegna minni háttar tognunar í læri.

Markkanen með sex þrista

Lauri Markkanen átti stórleik fyrir Chicago Bulls í 110-102 sigri gegn New York Knicks. Finninn skoraði 30 stig en þar af voru sex þriggja stiga körfur. Þetta var aðeins þriðji heimasigur Chicago í níu leikjum á tímabilinu.

Svipmyndir úr leikjunum tveimur, og sigri LA Lakers gegn Atlanta Hawks, má sjá hér að neðan. Í lok klippunnar eru svo að vanda tíu bestu tilþrif næturinnar, úr þeim níu leikjum sem fram fóru.

Klippa: NBA dagsins 2. febrúar

Úrslit næturinnar:

  • Atlanta 99-107 LA Lakers
  • Miami 121-129 Charlotte
  • Cleveland 100-98 Minnesota
  • Chicago 110-102 New York
  • Milwaukee 134-106 Portland
  • New Orleans 109-118 Sacramento
  • Oklahoma 106-136 Houston
  • Dallas 108-109 Phoenix
  • San Antonio 102-133 Memphis
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×