Fótbolti

Segir að það sé mikill munur á því að vera liðsfélagi Ronaldo eða Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo í leik Barcelona og Juventus í Meistaradeildinni fyrr í vetur.
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo í leik Barcelona og Juventus í Meistaradeildinni fyrr í vetur. Getty/David Ramos

Brasilíumaðurinn Arthur er einn af þeim sem þekkir það að spila við hlið bæði Lionel Mess og Cristiano Ronaldo. Hann segist núna hafa breytt um skoðun á því hvor sé betri.

Arthur fór á milli Barcelona og Juventus í sumar. Hann hafði spilað við hlið Lionel Messi hjá Barcelona í tvö tímabil en er nú búinn með hálft tímabil við hlið Cristiano Ronaldo hjá Juventus.

Arthur er auðvitað ekki sá fyrsti sem þekkir það á eigin skinni að spila með Messi og Ronaldo en hann var tilbúinn að útskýra muninn á þeim í viðtali við Desimpedidos.

„Cristiano Ronaldo tjáir sig meira en Messi og hann er í góðu sambandi við alla í búningsklefanum,“ sagði Arthur.

„Hann er mjög virkur í klefanum. Hann talar við alla og nær góðum tengslum við alla,“ útskýrði Arthur betur.

„Hver og einn hefur sínar eigin leiðir til að leiða sitt lið. Messi lætur verkin tala inn á vellinum. Hann sýnir það þegar hann fær boltann og með vilja sínum til að vinna leiki. Allir liðsfélagar hans sjá það,“ sagði Arthur.

En hvor þeirra er betri?

„Ég myndi velja Cristiano enda erum við liðsfélagar,“ sagði Arthur sem hafði hingað til sett Messi í fyrsta sæti. Það er ljóst að Cristiano Ronaldo hefur haft mikil áhrif á hann með fagmennsku sinni og metnaði.

„Við erum ekki það nánir að ég fari heim til Cristiano í kaffispjall en það er mjög gott á milli okkar,“ sagði Arthur.

„Cristiano klikkar aldrei ef einhver liðsfélagi hans þarf á honum að halda. Hann æfir eins og skepna, þekkir það ekki hvenær á að hvíla sig og hvetur þig til að gefa allt þitt. Hann er líka alltaf að segja mér hvað ég eigi að borða því hann hugsar um öll smáatriði,“ sagði Arthur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×